• 10.07.2013 00:00
  • Pistlar

Stelpurnar á EM

Þórir Hákonarson
Torir_Hakonarson_2007
A landslið kvenna leikur nú í  úrslitakeppni EM annað skiptið í röð.  Árið 2009 brutu stelpurnar okkar ísinn og léku á EM í Finnlandi eftir mikinn uppgang og frábæra frammistöðu árin þar á undan.  Það er flestum okkar enn í fersku minni þegar Írar komu í heimsókn á frosinn Laugardalsvöllinn seint að hausti 2008, í umspilsleik um sætið í lokakeppninni.  Ísland hafði þar betur og tryggði EM-sætið í fyrsta sinn.  Þjóðin hreifst með og kvennalandsliðið hefur notið gríðarlegra vinsælda hér á landi og eiga leikmenn það svo sannarlega skilið.  

Leiðin í úrslitakeppnina í ár var ekki ósvipuð þeirri leið sem farin var fyrir EM 2009, enda var EM-sætið aftur tryggt í umspili, að þessu sinni með öruggum sigrum gegn Úkraínu, þó litlu hafi munað að íslenska liðinu hefði tekist að ná efsta sæti riðilsins eftir harða keppni við Noreg, og fara þannig beint í úrslitakeppnina. Þar réði tap í lokaleiknum í Osló úrslitum.  Leikmenn liðsins létu það þó ekki á sig fá og sýndu svo ekki var um villst að sæti á EM 2013 var þeirra.   

Liðið hefur haldið sínu striki í mörg ár og er á meðal bestu þjóða í Evrópu, sem þátttakan í EM 2009 í Finnlandi og EM 2013 í Svíþjóð staðfestir.  Þessi árangur fámennrar þjóðar eins og okkar er auðvitað stórmerkilegur og eftir honum er tekið víðs vegar um Evrópu.  Það fer kannski ekki mikið fyrir því á Íslandi hversu merkilegur þessi árangur er en hins vegar hittir maður varla einstakling í Evrópskri knattspyrnu sem ekki minnist á árangur kvennalandsliðsins frá litla Íslandi og dáist að frammistöðunni. 

Í haust hefst svo undankeppni HM og gera má ráð fyrir því að einhverjar breytingar verði á liðinu og endurnýjun eigi sér stað sem er eðlileg þróun í öllum liðum.  Þá reynir á að halda rétt á spilunum og horfa til langtíma markmiða með liðið.     

Leikmenn liðsins og þjálfarar eru reynslunni ríkari eftir þátttökuna í Finnlandi 2009.  Þá náðist ekki stig í riðlakeppninni, en stelpurnar eru staðráðnar í að gera betur nú og komast upp úr riðlinum.  Í undirbúningi liðsins hefur á ýmsu gengið, úrslitin hafa ekki verið okkur hagstæð í þeim leikjum sem leiknir hafa verið á þessu ári og allnokkrir leikmenn hafa átt við meiðsli að stríða.  Þessi mótbyr í undirbúningi hefur þó vonandi lítið að segja þegar á hólminn er komið og góður stuðningur, hvort sem er á leikvöngunum í Kalmar og Växjo eða í stofunni heima á Íslandi, á kaffistofunni eða á samfélagsmiðlum, hjálpar liðinu í að ná sínum markmiðum.  Áfram Ísland!

Þórir Hákonarson, framkvæmdastjóri KSÍ