Öflugt knattspyrnustarf á liðnu starfsári
Árið 2012 var á margan hátt gott fyrir íslenska knattspyrnu. Nýir og ferskir vindar léku um A landslið karla. Liðið var undir stjórn nýs þjálfara, Svíans Lars Lagerbäck, sem byggði upp lið með marga unga og efnilega leikmenn í aðalhlutverkum. Undankeppni HM sem fram fer í Brasilíu 2014 hófst sl. haust með 4 leikjum, 2 á heimavelli og 2 á útivelli. Íslenska liðið vann 2 leiki en tapaði 2 og er sem stendur í 3. sæti með 6 stig á eftir Sviss (með 10 stig) og Noregi (7 stig). Á eftir koma Albanía (með 6 stig), Slóvenía (3 stig) og Kýpur (3 stig). Spennandi ár er því framundan hjá íslenska landsliðinu og góður árangur í þeim 6 leikjum sem eftir eru getur skilað liðinu í sæti sem gefur þátttökurétt í HM. Evrópa mun eiga 13 lið (9+4) í úrslitakeppni HM 2014. Þar verða sigurvegarar riðlanna 9 í undankeppninni í Evrópu auk þess sem þau 8 landslið sem hafna í 2. sæti riðlanna 9 og bestum árangri ná munu leika um 4 sæti með útsláttarfyrirkomulagi.
A landslið kvenna heldur áfram að gera það gott og tryggði sér rétt til þátttöku í úrslitakeppni EM 2013 sem fram fer í Svíþjóð í júlí. Ísland leikur þar í riðli með Noregi, Þýskalandi og Hollandi, en alls taka 12 landslið þátt í úrslitakeppninni. Það verður fróðlegt að fylgjast með framgangi íslenska liðsins í sumar, en liðið er skipað leikmönnum sem hafa mikla reynslu og margar þeirra tóku þátt í úrslitakeppni EM 2009. Eftir riðlakeppnina taka við 8-liða úrslit og þangað stefnir íslenska liðið. Leikmenn liðsins eiga hrós skilið fyrir góðan árangur. Þjálfarinn Sigurður Ragnar Eyjólfsson og hans starfslið hafa skilað frábæru starfi enn og aftur.
Yngri landsliðin léku fjölmarga leiki á árinu en hæst bar árangur U17 landsliðs karla sem lék í úrslitakeppni EM 2012, sem fram fór í Slóveníu í maí. Frábær árangur - 53 landslið hófu keppni en aðeins 8 léku til úrslita. Það er ljóst á árangri yngri landsliða að uppeldisstarf íslenskra félaga skilar mörgum efnilegum leik-mönnum um þessar mundir. Alls léku íslensk landslið 69 leiki 2012 sem er nýtt met. Í þessum leikjum léku 256 leikmenn fyrir Íslands hönd, 115 konur og 141 karl. Ótaldir eru þeir leikmenn sem ekki komu við sögu inni á vellinum sem og allur sá mikli fjöldi sem boðaður var á úrtaksæfingar.
Íslandsmótið 2012 markaði tímamót því að samþykkt var á ársþingi KSÍ að fjölga landsdeildum um eina. Því var leikið um það sérstaklega hvaða félög léku í nýrri 3. deild karla sem skipuð verður 10 liðum. FH varð Íslandsmeistari í meistaraflokki karla í sjötta sinn frá 2004. Sannarlega glæsilegur árangur, en FH hefur frá 2004, eða í áratug, hafnað í 1. eða 2. sæti Íslandsmótsins. Víkingur Ólafsvík náði þeim frábæra árangri í Íslandsmótinu að komast upp í efstu deild karla í fyrsta sinn í sögu félagsins. KR varð bikarmeistari í 13. sinn í meistaraflokki karla eftir sigur á Stjörnunni, sem lék í fyrsta sinn til úrslita. Nýtt nafn var ritað á Íslandsbikar kvenna annað árið í röð. Þór/KA varð Íslandsmeistari kvenna í fyrsta sinn á glæsilegan hátt. Stjarnan varð bikarmeistari í meistaraflokki kvenna í fyrsta sinn þegar liðið lagði Val í úrslitaleik.
Hvers kyns fræðslustarf skipar sífellt meiri sess í starfsemi KSÍ. Á starfsárinu voru haldnir fleiri fræðslu-fundir og námskeið en nokkru sinni fyrr í sögu KSÍ. Aukin þekking, hvort sem er á tæknilegum hliðum leiksins eða rekstrar, varðar brautina til meiri fagmennsku og vonandi betri árangurs. KSÍ hóf sókn í menntun leikmanna og þjálfara í markvörslu, en það er vel þekkt að sú leikstaða krefst meiri sérþekkingar en aðrar stöður á vellinum.
Fjármál knattspyrnuhreyfingarinnar eru sífellt til umfjöllunar enda bæði vandasamt og krefjandi verkefni að láta enda ná sama í rekstri knattspyrnufélaga. Stjórn KSÍ samþykkti sl. haust að innleiða nýjar reglur um fjárhagslega háttvísi í leyfiskerfi KSÍ. Ákvæði um jákvæða eiginfjárstöðu og hármarksskuldabyrði eiga að beina rekstri félaga í góðan farveg. Starfsemi KSÍ var í föstum skorðum á sl. starfsári. Rekstrarhagnaður af hefðbundinni starfsemi var tæpar 48 milljónir króna, en með framlögum og styrkjum til aðildarfélaga og fjármagnsliðum varð niðurstaðan hagnaður upp á hálfa milljón króna. Fjárhagsstaða KSÍ er traust við þessi tímamót.
Stjórn KSÍ þakkar aðildarfélögunum fyrir öflugt knattspyrnustarf á liðnu starfsári. Samstarf við forystu-menn félaganna var gott og ber að þakka þeim þeirra mikilvægu störf. Stjórn KSÍ þakkar einnig öllum þeim sem lagt hafa knattspyrnunni lið á árinu, s.s. dómurum, eftirlitsmönnum, nefndarmönnum, sjálfboðaliðum, stuðningsmönnum, samstarfsaðilum, fjölmiðlum og starfsmönnum hreyfingarinnar, og að síðustu öllum þeim fjölda iðkenda sem leggja stund á þessa skemmtilegu íþrótt.