• 24.10.2012 00:00
  • Pistlar

Þú getur breytt heiminum!

Við erum öll í íslenska landsliðinu!
ahorfendur-11

Kæri fótboltaunnandi,

Í dag ætlar þú að hjálpa mér að breyta heiminum...

Ég heiti Siggi Raggi og þjálfa A-landslið kvenna í knattspyrnu.

Ég held stundum fyrirlestra um hvað þarf til að ná árangri og hugarfar sigurvegarans og í upphafi þeirra segi ég oft að "það fyrsta sem maður þarf til að ná árangri er að eiga sér draum".

Fimmtudaginn 25. október klukkan 18.30  á Laugardalsvelli munu 18 landsliðskonur Íslands sjá æskudrauma sína um að komast í lokakeppni stórmóts rætast eða verða að engu.

Ísland spilar þá við Úkraínu úrslitaleik um að komast í lokakeppni Evrópumóts kvennalandsliða.

Nú ætla ég að hugsa eins og sigurvegari og biðja þig um greiða sem breytir heiminum...

Heimurinn sem þú ætlar að hjálpa mér að breyta er í huga þessara 18 stúlkna sem leika knattspyrnu fyrir íslenska kvennalandsliðið og dreymir um að komast í lokakeppni.  Það eru 18 stelpur sem spila alltaf með hjartanu og fórna sér fyrir íslensku þjóðina.  Þær hafa alist upp við að stelpur í fótbolta séu ekki jafn merkilegar og strákar.  Það hefur meðal annars endurspeglast í því að mun færri koma að styðja þær heldur en strákana okkar.

Ég ætla því að biðja þig um að kaupa miða á landsleikinn og mæta og styðja stelpurnar á þessum A-landsleik Íslands og Úkraínu sem fer fram á morgun (fimmtudaginn 25.okt) kl 18:30 á Laugardalsvelli.  Miðinn kostar bara 1.000 krónur.

Ef allir segja já eins og þú verður pottþétt uppselt!

Ég hef þjálfað kvennalandsliðið í 6 ár.  Öll árin hefur mig dreymt um að stelpurnar fengju að upplifa það að spila fyrir framan fullan Laugardalsvöll en völlurinn tekur 10.000 manns í sæti.

Ég á sjálfur litla stelpu sem er að alast upp við það að íþróttir stúlkna fá ekki sömu athygli, umfjöllun og fjármagn og karlaíþróttir.  Hver segir að heimurinn okkar þurfi að vera svoleiðis?  Við erum föst í viðhorfum sem gamlar hefðir hafa mótað en það er hægt að breyta heiminum.  Ég og þú getum það saman!

Venjulega koma á milli 3.000 og 4.000 manns á landsleikina okkar en mest hafa komið 6.000 manns á völlinn.  En ég vil fá 10.000 manns!  Með því að það verður uppselt á kvennalandsleikinn breytum við heiminum.  Ekki bara hjá þeim 18 stelpum sem klæðast landsliðstreyjunni í leiknum.  Heldur í huga allra lítilla stúlkna sem æfa íþróttir á Íslandi.  Stelpurnar eru nefnilega jafn merkilegar og strákarnir.  Innst inni vitum við að það er rétt.  Ég ætla að taka þátt í að breyta heiminum og ég vona að þú gerir það líka.

Ég treysti á að þú kaupir miða og allir sem þú þekkir mæti á völlinn með þér!  Takk fyrir að hjálpa mér að breyta heiminum!

Sjáumst á vellinum.

Áfram Ísland!

Siggi Raggi

A-landsliðsþjálfari kvenna í knattspyrnu

p.s. Landsleikurinn á morgun er úrslitaleikur um að komast í lokakeppni Evrópumóts kvennalandsliða sem fer fram í Svíþjóð á næsta ári.

Ef þú vilt breyta heiminum deildu þá þessum pistli út um allt.  Sendu hann til allra sem þú þekkir!

Siggi Raggi