• 25.07.2012 00:00
  • Pistlar

Margt framundan í fótboltanum

Þórir Hákonarson
Torir_Hakonarson_2007

 

Keppnistímabilið á Íslandi er nú um það bil hálfnað og mikil spenna virðist vera í öllum deildum, jafnvel meiri en oft áður.  Úrslitakeppni EM í Úkraínu og Póllandi hafði vissulega áhrif á áhorfendafjölda í deildunum hér heima líkt og áður þegar stórkeppnir eru í gangi en von er til að fjölgun verði nú þegar keppninni er lokið.

Mótin hafa í stórum dráttum gengið afar vel sem af er tímabili og fyrir utan þá leiki sem skipulagðir eru af KSÍ hafa verið haldin fjölmörg mót yngri iðkenda sem alltaf vekja mikla athygli og eru mikilvægur þáttur í grasrótarstarfi knattspyrnuhreyfingarinnar.  Stöð 2 Sport hefur gert þessum mótum afar góð skil í góðum sjónvarpsþáttum „Sumarmótin 2012“ og vert að benda áhugamönnum um knattspyrnu að horfa á þá þætti sem gefa góða mynd af spennunni og leikgleðinni sem ríkir á mótunum sem skipulögð eru af aðildarfélögum um allt land.  Aldrei áður hefur stuðningsmönnum gefist kostur á að sjá jafn marga leiki í beinni útsendingu annað hvort í sjónvarpi eða á netinu.  Beinar sjónvarpsútsendingar hafa verið frá 14 leikjum í Pepsi-deild karla og frá 11 leikjum í Pepsi-deild kvenna auk þess sem sýnt hefur verið frá 13 leikjum í 1. deild karla í beinni útsendingu á netinu. 

Á síðasta ársþingi KSÍ var samþykkt tillaga þess efnis að bæta við deild í meistaraflokki karla og verður því leikið í 5 deildum á keppnistímabilinu 2013.

Tvö efstu lið 3.deildar 2012 færast í 2.deild en 2 neðstu lið 2.deildar 2012 færast niður og leika í hinni nýju 3.deild 2013. Öll lið sem vinna sér þátttökurétt í úrslitakeppni 3.deildar karla árið 2012 að undanskildum þeim liðum sem leika til úrslita (og hafa því unnið sér sæti í 2.deild 2013) , vinna sér sæti í 3.deild karla árið 2013.  Liðin sem lenda í þriðja sæti í riðlakeppni 3.deildar 2012 leika úrslitaleik um sæti í 3.deild 2013. Fyrirkomulagið verður með þeim hætti að leiknir verða hreinir úrslitaleikir, á hlutlausum velli milli liðsins í 3. sæti A riðils og liðsins í 3.sæti C riðils annars vegar og liðsins í 3.sæti B riðils og 3.sæti D riðils hinsvegar. sigurvegarar leikjanna vinna sér sæti í hinni nýju 3.deild árið 2013 en deildin verður skipuð 10 liðum.  Mikilvægt er að félög kynni sér það fyrirkomulag sem verður á deildunum árið 2013 en það er að finna í reglugerð KSÍ um knattspyrnumót.  Fjölgun deilda í Íslandsmóti mun hafa umtalsverðar breytingar í för með sér og forvitnilegt verður að fylgjast með þeirri þróun sem breytingin mun leiða af sér. 

A landslið Íslands standa í ströngu á haustdögum

A landslið kvenna er í góðri stöðu í efsta sæti riðilsins í undankeppni EM 2013 og á tvo afar mikilvæga leiki eftir í riðlinum.  Leikið verður gegn Norður Írlandi á Laugardalsvelli laugardaginn 15. september og mun stuðningur áhorfenda þar skipta verulegu máli þar sem sigur í leiknum gæti enn frekar tryggt stöðu liðsins og gert því auðveldar fyrir í lokaleiknum sem verður gegn Noregi ytra 19. september.  Ísland, Noregur og Belgía keppa um efsta sæti riðilsins og 4 stig í leikjunum tveimur sem eftir eru myndu tryggja sæti okkar í úrslitakeppni EM 2013 sem fram fer í Svíþjóð.

A landslið karla mun hefja leik í undankeppni HM 2014 með heimaleik gegn Noregi föstudaginn 7. september á Laugardalsvelli.  Lokaleikur Íslands í undirbúningi fyrir undankeppnina verður vináttuleikur gegn Færeyjum 15. ágúst og þar mun Lars Lagerbäck stjórna landsliðinu í fyrsta skipti á heimavelli.  Mikilvægt er að knattspyrnuáhugamenn og stuðningsmenn landsliðsins fjölmenni á þá leiki sem framundan eru, kynslóðaskipti eru að eiga sér stað í liðinu og afar þýðingarmikið að ungir leikmenn liðsins finni fyrir stuðningi okkar í komandi verkefnum.  Ég hvet því alla áhugamenn um knattspyrnu að fjölmenna á þá landsleiki sem framundan eru, bæði hjá A landsliði kvenna sem er í vænlegri stöðu um að komast í lokakeppni EM og hjá A landsliði karla sem er að hefja leik í undankeppni HM með nokkuð endurnýjað lið frá síðustu keppni.

Að ofangreindu má sjá að fjölmargt er framundan fyrir knattspyrnuáhugafólk og nú tekur við spennandi tímabil þegar línur taka að skýrast í baráttu liða í deild og bikar.  Landsliðin munu jafnframt verða í sviðsljósinu og áhugaverð tækifæri eru hjá báðum A landsliðum.  

Fjölmennum á völlinn og styðjum okkar lið!

Þórir Hákonarson framkvæmdastjóri KSÍ