• 29.05.2012 00:00
  • Pistlar

Hjartastuðtæki og neyðarsjúkratöskur

Mynd-afhending-neydartosku-1
Mynd-afhending-neydartosku-1

Vegna hertra reglna UEFA um öryggismál landsliða í knattspyrnu og atburða sem átt hafa sér stað á knattspyrnuvöllum í Evrópu festi KSÍ nýverið kaup á Lifepak CR Plus sjálfvirkum hjartastuðtækjum og Sport Promote sjúkratöskum með endurlífgunar- og fyrstu hjálparbúnaði frá Á.Hr ehf.

Lifepak CR Plus er alsjálfvirk hjartastuðtæki, ætlað til almenningsnotkunar og krefst ekki sérfræðiþekkingar þess sem það notar. Tækið talar til notandans og gefur fyrirmæli um aðgerðir á íslensku. Lifepak CR Plus tækin er nú þegar að finna hjá öllum aðildarfélögum ÍBR, flestum knattspyrnufélögum á höfuðborgarsvæðinu, helstu knattspyrnufélögum í Evrópu og knattspyrnusamböndum aðildarlanda UEFA.

Sport Promote sjúkratöskur innihalda búnað fyrir grunnendurlífgun og fyrstu hjálp. Gert er ráð fyrir hjartastuðtækjum í töskunum ásamt þeim búnaði sem fyrir er til að tryggja öndunarveg, öndun og blóðrás. Með þessu móti er allur nauðsynlegur búnaður á sama stað og einfalt og öruggt að grípa með komi upp neyðarástand.

Landslið Íslands munu því framvegis ferðast með hjartastuðtæki og fullbúnar neyðarsjúkratöskur ásamt hefðbundnum sjúkrabúnaði í öll sín verkefni, innanlands sem erlendis.

Starfsmenn KSÍ, þjálfarateymi og leikmenn landsliða hjá KSÍ munu í framhaldinu sækja námskeið í grunnendurlífgun og skyndihjálp undir handleiðslu hjúkrunarfræðinga og læknateymis landsliðanna.

Í kjölfar atburða sem átt hafa sér stað á knattspyrnuvöllum á undanförnum árum og þá sérstaklega í kjölfar þess að ungur leikmaður Bolton Wanderes í ensku knattspyrnunni hné niður nýlega gerði KSÍ könnun á því hjá liðum í Íslandsmóti hvort hjartastuðtæki væru á heimavöllum félaganna. Í flestum tilfellum eru slík tæki til staðar en vakin hefur verið athygli á málinu hjá þeim vallaryfirvöldum þar sem hjartastuðtæki er ekki til og óskað eftir viðbrögðum.