• 10.05.2012 00:00
  • Pistlar

Hafsteinn Guðmundsson - Minning

Hafsteinn Guðmundsson
Hafsteinn-Gudmundsson

 

Það er langt um liðið síðan Íslendingar léku sinn fyrsta landsleik í knattspyrnu 1946.  Hafsteinn Guðmundsson, sem lést 29. apríl sl. 89 ára að aldri, tók þátt í leiknum, þá 22 ára. Hafsteinn hafði árið áður orðið Íslandsmeistari með Val, en þar lék hann mestan hluta síns ferils. Þetta vegarnesti hefur markað lífshlaup Hafsteins  því að knattspyrnan átti eftir að fylgja honum ævilangt. Hann hóf að breiða út knattspyrnuíþróttina og þjálfaði m. a. á Akranesi, Akureyri og Siglufirði.

Það var mikill hvalreki fyrir knattspyrnuna á Suðnesjum þegar Hafsteinn gerðist íþróttakennari þar 1947. Hann flutti síðan til Keflavíkur 1951 og hóf að leika með UMFK 1954. Hann var aðalhvatamaður að stofnun ÍBK 1956 og fyrsti formaður, allt til ársins 1975. Hann var spilandi þjálfari ÍBK 1958-60. ÍBK varð Íslandsmeistari í knattspyrnu í fyrsta sinn 1964 og síðan þrisvar 1969-73. ÍBK varð bikarmeistari 1975 og segja má að tímabilið 1969-75 hafi verið mesta blómaskeið í knattspyrnunni í Keflavík. Það er með réttu sem Hafsteinn hefur oft verið nefndur faðir knattspyrnunnar í Keflavík.

Hafsteinn, sem lék 4 landsleiki 1946-51, kom aftur að landsliðsmálum síðar. Hann var skipaður landsliðseinvaldur 1969. Starf landsliðseinvalds var að velja landsliðshópinn og gerði Hafsteinn það allt til ársins 1974. Þetta fyrirkomulag er einstakt í sögu KSÍ. Hafsteinn sat í stjórn KSÍ 1968 -71 og í varastjórn1961-63.

Hafsteinn fékk heiðurskross KSÍ fyrir störf sín að knattspyrnumálum.  Hann var tíður gestur á landsleikjum, fylgdist vel með og lagði gott til málanna. Áhugi hans á leiknum var sannur og entist ævilangt.

Knattspyrnuhreyfingin minnist Hafsteins með hlýhug og þakklæti fyrir ómetanlegt framlag hans að uppgangi íþróttarinnar. KSÍ sendir ættingjum og vinum innilegar samúðarkveðjur.

Geir Þorsteinsson,

formaður.