• 12.03.2012 00:00
  • Pistlar

Kveðja frá KSÍ

Steingrímur Jóhannesson
Steingrimur-Johannesson

 

Sumir búa yfir þeim hæfileika í knattspyrnu að skora mörk. Framherjinn knái úr Vestmannaeyjum, Steingrímur Jóhannesson, var slíkur leikmaður. Steingrímur lék um árabil með knattspyrnuliði ÍBV við góðan orðstír, var lykilmaður í liði ÍBV sem varð tvívegis Íslandsmeistari og einu sinni bikarmeistari á árunum 1997 og 1998, og varð markakóngur efstu deildar árin 1998 og 1999, en auk þess lék hann með KFS, Selfoss og Fylki, þar sem hann varð bikarmeistari með síðastnefnda liðinu árin 2001 og 2002. 

Steingrímur lék einn A-landsleik á ferlinum, en það var árið 1998 þegar Ísland mætti Suður-Afríku í vináttulandsleik. Þá lék hann tvo leiki með U21 landsliði Íslands árin 1994 og 1995.

Steingrímur var drengur góður og afar vel liðinn, bæði innan vallar sem utan.  Hann var kraftmikill og duglegur leikmaður, kappsmikill og fylginn sér, en umfram allt heiðarlegur leikmaður sem naut virðingar samherja jafnt sem mótherja.  Minningarnar um Steingrím eru margar og upp í hugann koma falleg mörk og drengileg framkoma. Þessar minningar lifa þegar við kveðjum góðan félaga.

Knattspyrnuhreyfingin sendir ættingjum Steingríms, eiginkonu og börnum innilega samúðarkveðju.

Geir Þorsteinsson,

formaður KSÍ.