• 08.02.2012 00:00
  • Pistlar

Starfsemi KSÍ meiri en nokkurn tímann fyrr

Geir Þorsteinsson
Geir-Thorsteinsson-April-2011-minni

 

Merkum áfanga var náð þegar 100. Íslandsmótið í knattspyrnu fór fram 2011. Íslandsmótið hefur frá fyrsta degi verið snar þáttur í mannlífinu og varla er það samfélag eða sú byggð á landinu að þar hafi ekki verið háðir kappleikir undir merkjum þess. Allar götur frá 1912 hefur Íslandsmótið í knattspyrnu verið helsti íþróttaviðburður landsins, fyrst í Reykjavík en síðan um land allt. Almenningur sýndi leiknum strax mikinn áhuga og fjölmennti á völlinn og er svo enn í dag. Í tímans rás hefur Íslandsmótið vaxið úr nokkrum leikjum í fleiri þúsund leiki á ári hverju. Aldrei hafa fleiri lið tekið þátt og aldrei hafa leikirnir verið fleiri en á 100. Íslandsmótinu.

Skipulögð keppni í 100 ár sýnir vel vinsældir knattspyrnuleiksins og þann trausta grunn sem hann byggir á. Margir hafa komið við sögu og gert garðinn frægan með þátttöku sinni en aðrir hafa unnið afrek utan vallar við stjórnun og rekstur knattspyrnuliða. Íslandsmótið hefur laðað að sér æsku landsins til þátttöku í knattspyrnu, íþróttinni sem nýtur meiri vinsælda en nokkur önnur íþrótt um heim allan. KSÍ fékk Sigmund Ó. Steinarsson til að rita sögu Íslandsmótsins og rakti Sigmundur hana í máli og myndum í tveimur glæsilegum bókum sem komu út á starfsárinu.

KR varð Íslandsmeistari með sigri í Pepsi-deild karla en það var einmitt KR sem bar sigur úr býtum í fyrsta mótinu 1912. KR varð einnig bikarmeistari eftir sigur á Þór í skemmtilegum úrslitaleik Valitor-bikars karla. Nýtt nafn var ritað á Íslandsmeistarabikar kvenna. Stjarnan varð glæsilegur sigurvegari en liðið hafði mikla yfirburði í Pepsi-deild kvenna, vann 17 leiki og tapaði einum. Valur vann KR í úrslitaleik Valitor-bikars kvenna og varð liðið þar með bikarmeistari á 100. afmælisári félagsins.

U21 landslið karla tók þátt í úrslitakeppni EM í fyrsta sinn en keppnin fór fram í Danmörku og tóku 8 landslið þátt. Íslenska liðið hafnaði í 3. sæti í sínum riðli eftir leiki gegn Hvíta-Rússlandi, Sviss og Danmörku. Ísland hafnaði því í 5. - 6. sæti í Evrópukeppni landsliða U21 2009-11 en allar 53 aðildarþjóðir UEFA tóku þátt í undankeppninni. Þessi árangur Íslands vakti mikla athygli í Evrópu. Yngri landslið karla og kvenna áttu í heildina gott ár og árangur U17 landsliðs kvenna var frábær, en liðið komst í 4ra liða úrslitakeppni EM og hafnaði í 4. sæti, sem er besti árangur Íslands í keppni á vegum UEFA. U17 landslið karla vann Opna Norðurlandamótið í fyrsta sinn, en mótið var haldið á Norðurlandi og tókst vel. Þessi árangur sýnir enn á ný hve öflugt uppbyggingarstarf fer fram innan aðildarfélaga KSÍ.

A landslið karla lauk þátttöku í undankeppni EM 2012, en úrslitakeppnin fer fram í Póllandi og Úkraínu í sumar. Liðið lék 5 leiki á árinu í sínum riðli í EM, tapaði þremur leikjum, gerði eitt jafntefli og vann einn. Niðurstaðan varð því 4 stig í undankeppninni og 4. sæti í riðlinum. Danmörk varð sigurvegari riðilsins og fór beint í úrslit. Portúgal sem hafnaði í 2. sæti riðilsins komst einnig í úrslit, en eftir umspil við Bosníu. Stjórn KSÍ ákvað að endurnýja ekki samning sinn við Ólaf Jóhannesson landsliðsþjálfara en hann rann út um sl. áramót. Ólafi eru þökkuð góð störf fyrir KSÍ sl. 4 ár. Lars Lagerbäck var ráðinn landsliðsþjálfari næstu tvö árin, 2012-13, og mun hann stýra liðinu í undankeppni HM 2014 en þar leikur Ísland í riðli með Noregi, Sviss, Slóveníu, Albaníu og Kýpur.

A landslið kvenna hóf leik í undankeppni EM 2013 en úrslitakeppnin fer fram í Svíþjóð og þar taka 12 lið þátt, en UEFA hefur ákveðið að liðin verði 16 í úrslitakeppni EM 2017. Þegar keppnin er hálfnuð er Ísland í 1. sæti með 13 stig úr 5 leikjum. Liðið hefur staðið sig frábærlega og ef það heldur áfram á sömu braut getur það í haust tryggt sér sæti í úrslitakeppninni í Svíþjóð. Sigurvegarar riðlanna í undankeppninni komast beint í úrslitakeppnina ásamt því liði sem hlýtur bestan árangur í 2. sæti. Síðan fara önnur lið í 2. sæti riðlanna í umspil um þrjú sæti í úrslitakeppninni.

Starfsemi KSÍ var viðamikil á sl. starfsári og í raun meiri en nokkurn tímann fyrr. Metár á margan hátt, m.a.  í fjölda skipulagðra leikja og fjölda liða í keppni, fræðslustarfsemi var öflugri en áður fyrir þjálfara og dómara. Nú hafa 8 íslenskir þjálfarar lokið æðstu þjálfaragráðu UEFA - Pro gráðu sem er jákvæð þróun fyrir íslenska knattspyrnu. Rekstrarhagnaður á hefðbundinni starfsemi var tæp 61 milljón króna, en með framlögum og styrkjum til aðildarfélaga og fjármagnsliðum varð niðurstaðan hagnaður upp á rúmar 9 milljónir króna. Fjárhagsstaða KSÍ er traust við þessi tímamót.

Stjórn KSÍ þakkar aðildarfélögunum fyrir öflugt knattspyrnustarf á liðnu starfsári. Samstarf við forystumenn félaganna var til fyrirmyndar og ber að þakka þeim þeirra mikilvægu störf. Stjórn KSÍ þakkar einnig öllum þeim sem lagt hafa knattspyrnunni lið á árinu, s.s. dómurum, eftirlitsmönnum, nefndarmönnum, sjálfboðaliðum, stuðningsmönnum, samstarfsaðilum, fjölmiðlum og starfsmönnum hreyfingarinnar, og að síðustu öllum þeim fjölda iðkenda sem eru alltaf í boltanum.

 

 

Geir Þorsteinsson, formaður KSÍ