• 23.06.2011 00:00
  • Pistlar

Mót okkar yngstu iðkenda

Leikmenn Breiðabliks og Þróttar þakka fyrir leikinn eftir leik liðanna í 7. flokki B á Norðurálsmótinu á Akranesi
2011-7.-flokkur-Breidablik-Throttur

Mótahald í knattspyrnu stendur nú sem hæst, mótahald sem með hverju árinu verður æ viðameira.  Það fara fram u.þ.b 17.000 knattspyrnuleikir á árinu, um helmingur þeirra er á vegum KSÍ en hinn helmingurinn er skipulagður af aðildarfélögunum sjálfum.  Stór hluti af þessum leikjum fellur undir „opin mót“, þ.e. mót sem félögin skipuleggja sjálf fyrir yngri iðkendur.

Opnu mótin sem skipulögð eru að öllu leyti af aðildarfélögum eru gríðarlega mikilvæg fyrir okkar yngsta knattspyrnufólk og því nauðsynlegt að vel sé að þeim staðið.  Þarna fá þeir sem eru að stíga sín fyrstu skref á knattspyrnuvellinum, smjörþefinn af íþróttinni og skiptir því miklu máli að þessi fyrstu skref séu af jákvæðum toga.  Mótin marka oft hápunkt sumarsins hjá yngsta fólkinu okkar og foreldrum þeirra.  Það eru ekki aðeins þeir sem keppa sem eru að upplifa þessi mót á jákvæðan hátt heldur er þetta einnig upplifun fyrir alla fjölskylduna. 

Fjölmörg aðildarfélög skipuleggja opin mót um allt landið og gera það af miklum metnaði.  Skiptir þar langmestu hið gríðarlega mikla sjálfboðaliðastarf sem unnið er í félögunum.  Það er svo sannarlega í mörg horn að líta þegar slík mót eru haldin og sá mannauður sem liggur í félagsmönnum er því ómetanlegur því marga þarf að virkja hjá félögunum í mótahaldinu.  Eftir standa svo hamingjusamir ungir knattspyrnuiðkendur sem, burtséð frá úrslitum leikja, standa eftir með jákvæðar og góðar minningar frá fyrstu knattspyrnumótunum.

Leikmenn Breiðabliks og Þróttar þakka fyrir leikinn eftir leik liðanna í 7. flokki B á Norðurálsmótinu á Akranesi