• 01.03.2011 00:00
  • Pistlar

Mottumars 2011!

Mottu-mars - Yfirvaraskegg er málið
steinar3

Það er kominn sá tími ársins að karlmenn landsins hætta að raka þá grön sem sprettur ofan við efri vör til að sýna stuðning við árveknisátakið Mottumars.  Það var einu sinni þannig að margir frægustu knattspyrnumenn heims skörtuðu myndarlegu yfirvaraskeggi, mottu, og þótti það merki um mikla karlmennsku.  Íburðarmikil motta er sjaldgæf sjón í dag, og því er það vel til fundið að nota hana til að vekja athygli á verðugu verkefni.

Meira en 700 karlar greinast ár hvert með krabbamein, en rannsóknir sýna að með forvörnum og heilbrigðu líferni sé hægt að koma í veg fyrir 1 af hverjum 3 tilfellum. Með því að safna yfirvaraskeggi sýnum við samstöðu og um leið hjálpum við til við söfnun áheita til styrktar málefninu.  Átakið er tvíþætt, árveknisátak og fjáröflunarátak og það sem safnast verður notað til að efla forvarnir og fræðslu, rannsóknir og ráðgjöf.

Knattspyrnuhreyfingin lætur sitt ekki eftir liggja í þessari baráttu og eru allir þeir sem vettlingi geta valdið hvattir til að sýna stuðning í verki, safna mottu og/eða styrkja verkefnið.  Knattspyrnuleikmenn og knattspyrnulið geta t.d. keppt sín á milli, því íþróttahreyfingin er auðvitað full af fólki með kraftmikið keppnisskap. 

Skráningar fara fram á Mottumars síðunni og þar má hlaða inn myndum og hvetja fólk til áheita.  Unnt er að skrá sig sem einstakling eða fá vinnufélaga, vini, vandamenn eða aðra í lið með sér og safna áheitum saman. Þeir sem safna mestum áheitum, bæði í einstaklings- og liðakeppninni, fá viðurkenningu sem nefnist Mottan 2011 sem og verðlaun og mun félag rakarameistara velja fegurstu mottuna 2011. Það er sjálfsagt að fagaðilar sjái um það val, enda margir sem leggja mikla vinnu í að vera með sem glæsilegasta mottu, og því þurfa dómararnir að vera með tilskilin réttindi.

Mottan er málið í mars!

Þórir Hákonarson framkvæmdastjóri KSÍ

Sveinbjörn Brandsson formaður heilbrigðisnefndar KSÍ