• 12.02.2011 00:00
  • Ársþing
  • Pistlar

Ávarp formanns á 65. ársþingi KSÍ

Frá 65. ársþingi KSÍ
KSI_10

 

Forystufólk íslenskrar knattspyrnu og góðir gestir.

Góðir þingfulltrúar.

Ársins 2010 verður minnst fyrir það að í fyrsta sinn fór Heimsmeistarakeppnin fram í Afríku. Úrslitakeppni HM 2010 fór fram í S-Afríku og var framkvæmd keppninnar gestgjöfunum til mikils sóma. Þessi fyrsta úrslitakeppni HM í Afríku sýndi að knattspyrnuíþróttin nýtur mikilla vinsælda í álfunni eins og um heim allan. Landslið Spánar varð heimsmeistari og lék allra liða best.  Næsta úrslitakeppni HM fer fram í Brasilíu 2014 og verður dregið í riðla undankeppninnar í júlí í ár. FIFA hefur þegar ákveðið gestgjafa fyrir úrslitakeppni HM 2018 og 2022. Ný lönd fá heiðurinn, Rússland 2018 og Qatar 2022. Úrslitakeppni HM hefur mikla þýðingu fyrir útbreiðslu knattspyrnunnar og eykur ævinlega á vinsældir íþróttarinnar. Hér á landi var fylgst vel með og fleiri börn og unglingar fóru að sparka bolta.

A landslið karla leikur nú í undankeppni EM 2012 en úrslitakeppnin fer fram í Póllandi og Úkraínu. Eftir 3 leiki hefur liðið ekki náð stigi, ósigrar gegn Noregi, Danmörku og Portúgal eru staðreynd. Vitanlega er það metnaður KSÍ að gera betur og framundan eru 5 leikir á þessu ári sem gefa tækifæri til að bæta úr stigaleysi. Þegar hefur verið ákveðið að úrslitakeppni EM 2016 verði í Frakklandi og þar muni 24 lið taka þátt í stað 16 í Póllandi og Úkraínu.

Árangur U21 liðs karla vakti verðskuldaða athygli og ljóst að við eigum marga góða leikmenn í þessum aldursflokki. Þegar hafa margir þessara leikmanna skilað sér upp í A landsliðið og má segja að ákveðin kynslóðaskipti séu að eiga sér stað þar. U21 liðið tryggði sæti í úrslitakeppni EM í fyrsta sinn með því að vinna Skota tvisvar í umspili, en úrslitakeppnin fer fram í Danmörku í júní á þessu ári. Þessir ungu og spræku strákar hafa svo sannarlega stolið hinni íslensku knattspyrnusenu og fangað huga knattspyrnuáhugafólks landsins.  Það verður hverjum áhugamanni um knattspyrnu á Íslandi mikilvægt að fylgjast með þessum piltum í Danmörku og auðvitað um ókomna tíð.

Frammistaða yngri landsliða okkar gefur góð fyrirheit um framtíðina og sjaldan hafa okkar lið í heild sinni náð eins góðum árangri á alþjóðavettvangi.  U17 ára lið karla og kvenna komust áfram í milliriðla fyrir EM 2011 sem og U19 ára lið kvenna.  Þessi landslið eiga því möguleika á að leika í lokakeppni EM sem er glæsilegur árangur og sýnir vel hve öflugt uppbyggingarstarf fer fram innan aðildarfélaga KSÍ.

A landslið kvenna lauk þátttöku sinni í undankeppni HM og hafnaði í 2. sæti í sínum riðli. Þessi góði árangur nægði þó ekki til halda lengra í keppninni. Úrslitakeppnin fer fram í Þýskalandi í ár og verður eflaust glæsilegur vitnisburður um vöxt og framfarir í knattspyrnu kvenna. Í mars verður svo dregið í undankeppni EM 2013 en úrslitakeppnin fer fram í Svíþjóð.

Góðir þingfulltrúar.

Ársins 2010 verður auðvitað líka minnst fyrir það að nýtt nafn var ritað á Íslandsmeistarabikar karla. Ungt og efnilegt lið Breiðabliks varð sigurvegari eftir spennandi lokaumferðir í Pepsi-deildinni. Liðið gaf tóninn með skemmtilegri knattspyrnu. Það var skipað fjölmörgum ungum og efnilegum leikmönnum, sem höfðu hraða og góða boltatækni. Ný kynslóð íslenskra leikmanna er að koma fram á sjónarsviðið. Norðurland á nú aftur lið í efstu deild karla eftir langt hlé og er það vel en lið Þórs frá Akureyri komst upp ásamt Víkingi R. Þá var athyglisvert að sjá uppgang fyrir vestan með glæsilegum árangri Víkings frá Ólafsvík og BÍ/Bolungarvíkur sem bæði unnu sér sæti í 1. deild karla. FH vann KR örugglega í úrslitaleik VISA-bikarsins en leikurinn fór nú aftur fram í ágústmánuði.

Valur hélt áfram einokun sinni á Íslandsmeistaratitlinum með því að sigra í Pepsi-deild kvenna - fimmti sigurinn í röð.  Þó verður að segjast að sennilega hafa aldrei áður jafn mörg lið keppt af svo mikilli hörku í efri hluta deildarinnar. En Valur var sem fyrr með besta liðið, frábæra leikmenn í öllum stöðum, og vann tvöfalt í ár - VISA-bikarinn var þeirra eftir sigur á Stjörnunni í úrslitaleik. ÍBV og Þróttur R. unnu sér sæti í efstu deild kvenna og Þróttur eftir langt hlé í hópi þeirra bestu.

Að vanda fór fram mikið starf í yngri flokkum og það sýnir vel hve mikið það var að aldrei fyrr í sögu KSÍ hafa liðin verði jafnmörg og leikirnir jafnmargir. Það ber að þakka fyrir þetta mikla og mikilvæga starf aðildarfélaga KSÍ.

Íslensk knattspyrna nýtur mikilla vinsælda hjá almenningi og umfjöllun fjölmiðla er mikil. Aldrei fyrr hafa jafnmargir árhorfendur mætt á leiki efstu deildar karla á einu tímabili eða tæplega 160 þúsund manns.

Fræðslustarf KSÍ er sífellt umfangsmeira og aldrei fyrr hefur KSÍ skipulagt jafnmarga fræðsluviðburði en metþátttaka var í þeim. Menntun þjálfara er grunnforsenda ef framfarir eiga að verða innan vallar. Fræðslustarfið skapar aukna þekkingu í knattspyrnuhreyfingunni og þannig vonandi aukna fagmennsku. Enn var aukið við fræðslustarf dómara og auk hefðbundinna þátta tóku 3 íslenskir dómarar þátt í nýju námskeiði UEFA fyrir unga og efnilega dómara.

Eins og fram kemur í ársreikningi 2010 voru rekstrartekjur KSÍ alls 723 m.kr. en rekstrargjöld 656 m.kr. Rekstrarhagnaður á hefðbundinni starfsemi var rúmar 67 m.kr. en með framlögum og styrkjum til aðildarfélaga og fjármagnsliðum varð niðurstaðan tap upp á tæpar 16 m.kr. Rétt er að taka fram að KSÍ hafði umsjón með greiðslu á hátt í 250 mkr. til félaga í efstu deild karla sem ekki eru færðar í rekstrarreikningi KSÍ – þ.e. markaðs- og sjónvarpstekjur auk framlaga frá UEFA. Þetta samsvaraði 1/3 af rekstrartekjum KSÍ og var um 20 m.kr. pr. lið en skiptingin var hins vegar önnur í reynd.  

Góðir þingfulltrúar.

Knattspyrnuleikurinn sjálfur hefur ekki breyst svo mikið í áranna rás og þá á ég við knattspyrnulögin, reglurnar sem leikið er eftir. Innan vallar etja kappi tvö 11 manna lið og dómarinn og hans aðstoðarmenn sjá til þess að leikreglum sé fylgt. Þjálfun og undirbúningur leikmanna hefur tekið miklum framförum á liðnum árum, fagmennska aukist og æfinga- og keppnisaðstaðan batnað til mikilla muna. En breytingar utan vallar eða í umhverfi knattspyrnuleiksins hafa orðið mun meiri sl. áratugi. Kemur þar margt til. Efling knattspyrnunnar á heimsvísu og aukið fjármagn til leiksins hafa styrkt milliríkjasamtökin, UEFA og FIFA, sem hefur leitt til þess að þau hafa aukið fjárhagslegan stuðning við aðildarsambönd sín en um leið lagt auknar skyldur á þeirra herðar og hert kröfur á margan hátt. Yfirvöld hafa sýnt umhverfi leiksins vaxandi áhuga eins og til dæmis Evrópusambandið (samtök Evrópuríkja), sem hefur leitt til ýmis konar afskipta og flóknari reglugerða er varða knattspyrnuumhverfið. Ýmsir hagsmunahópar, s.s. samtök leikmanna, félaga, hvers kyns umboðsmenn og viðskiptahópar, vilja svo líka hafa áhrif. Allt þetta samfara auknum vinsældum knattspyrnunnar á heimsvísu og miklum fjárhagslegum vexti hefur leitt til mikilla breytinga í heimi knattspyrnunnar. Knattspyrnusambönd hafa fundið fyrir þessum breytingum og hafa vitanlega þurft að laga sig að þeim. Það er hins vegar mikilvægt að knattspyrnusambönd haldi áfram að vera samnefnari aðildarfélaganna og þjóni hagsmunum heildarinnar.

Næsta sumar verður merkilegt í íslenskri knattspyrnusögu, ekki eingöngu vegna þess að U21 landslið karla mun leika í úrslitakeppni EM í fyrsta sinn, heldur vegna þess að þá mun 100. Íslandsmótið fara fram.  Fyrsta Íslandsmótið fór fram árið 1912 og voru þátttökuliðin þrjú – Framarar, KR-ingar og Eyjamenn, sem lögðust í tveggja daga ævintýralegt ferðalag til að komast til leiks.  KSÍ mun leggja sitt af mörkum til að gera 100. Íslandsmótið eins glæsilegt og kostur er.

KSÍ hefur fengið styrk frá FIFA til að auka aðstoð sambandsins við aðildarfélög sín, sér í lagi í fræðslu-, þjálfunar- og dómaramálum. KSÍ mun hrinda því verkefni af stað og m.a. ráða starfsmenn til verksins á landsbyggðinni. KSÍ mun á næstu vikum gefa út mynddisk undir heitinu Tækniskóli KSÍ með æfingum fyrir yngstu iðkendur knattspyrnu sem sýnir hvernig þeir geta æft sig og þannig öðlast meiri knatttækni. Mynddisknum verður dreift frítt til allra iðkenda aðildarfélaga KSÍ.

Stjórn KSÍ þakkar ykkur, forystusveit íslenskrar knattspyrnu, fyrir frábær störf á starfsárinu og fyrir gott samstarf. Það er fyrir ykkar miklu störf sem knattspyrnuhreyfingin á Íslandi stendur eins sterk og raun ber vitni. Ég óska ykkur gæfu á komandi keppnistímabili.

Ársþing KSÍ er vettvangur til umræðu og breytinga. Við hittumst hér til að ræða saman formlega, en ekki síður til þess að bera saman bækur okkar með óformlegum hætti. Staða íslenskrar knattspyrnu er traust þegar ég segi 65. ársþing Knattspyrnusambands Íslands sett.