• 12.01.2011 00:00
  • Pistlar

Graspistill frá Afríku

Lúðvík Georgsson
LSGmynd

Undirritaður sat um daginn á hótelherbergi, þúsundir kílómetra frá okkar ástsæla Fróni, vegna vinnu fyrir Jarðhitaskólann, þegar hann rak augun í frétt á vefnum um nýjan pistil á vefsíðu KSÍ, og fletti spenntur upp á honum.  Og vissulega komstu mér verulega á óvart kæri knattspyrnuvinur Viðar Halldórsson, ekki síst með því að gera mig að aðalefni pistilsins.  Ég er almennt mjög opinn fyrir skoðanaskiptum og umræðu, en ég verð samt að játa að pistill þinn olli mér nokkrum vonbrigðum.  Því var óhjákvæmilegt fyrir mig að senda vefsíðu KSÍ smápistil héðan frá Kenýa og ég vona að þú takir því á jákvæðan hátt.  Kannski verð ég kominn heim þegar þú sérð hann en það skiptir ekki máli. 

Í grunninn erum við Viðar ekki ósammála og stefna okkar er ein, þ.e. að íslensk knattspyrna megi rísa eins hátt og mögulegt er.  Hins vegar kann okkur að greina lítillega á um hvernig að það megi verða, og þá fyrst og fremst um hve langt aðalkeppnistímabil okkar eigi að vera, þegar leikið er í Íslandsmóti og bikar.  Það er engin spurning um að gras (náttúrugras) er besta undirlag sem hægt er að leika knattspyrnu á.  Vandamálið okkar á Klakanum er bara hvað sumarið er stutt.  Við erum með lengsta æfingatímabil í heimi, lengra heldur en keppnistímabilið.  Hjá flestum þjóðum er æfingatímabilið 1½-3 mánuðir en keppnistímabilið 7-9 mánuðir, en hjá okkur eru hlutföllin því miður ansi mikið öðruvísi.  Ég hef lengi talið að það hljóti að vera skemmtilegra og betra að leika alvöruleiki heldur en eintóma æfingaleiki svo mánuðum skiptir.  Veðráttan er okkur erfiður þröskuldur á Klakanum, en við getum samt lengt keppnistímabilið í um 7 mánuði, og leikið úti við svipaðar aðstæður og næstu nágrannar okkar.  Auðvitað yrði það stundum við lakara veður en ella, en það verður þá bara að hafa það.  En til þess að þetta geti orðið þá er eina lausnin, því miður, að leika á knattspyrnugrasi (sem er nafnið á gervigrasi skv. skilgreiningu FIFA), a.m.k. í einhverja mánuði.  Og ef það er ekki aðgengilegur kostur að leika þennan hluta mótsins úti, þá er hinn kosturinn að fara með hluta af Íslandsmótinu inn í knattspyrnuhúsin.  Nógu mikið er nú búið að fjárfesta í þeim og ærin ástæða til að fá meira út úr þeirri fjárfestingu.  Ég er alveg sannfærður um að þegar sú kynslóð, sem nú er að alast upp á KSÍ sparkvöllum út um allt land, verður vaxin úr „knattspyrnugrasi“ þá verður þetta ekkert mál.

Það getur ekki verið stefna knattspyrnuhreyfingarinnar á Íslandi um ófyrirsjáanlega framtíð að takmarka keppnistímabilið við 5 mánuði eins og nú, eða reyna kannski í besta falli að teygja það um 2-3 vikur í viðbót, en ef svo er þá get ég alveg verið sammála Viðari um að það sé óþarfi að vera í miklum pælingum um að leggja knattspyrnugras á aðalvellina, a.m.k. á syðri hluta Klakans.  Hins vegar er það nú einu sinni þannig að framtíðarstefna hlýtur alltaf að vera í mótun og umræður um hana af hinu góða, ekki síst þegar það eru gamlir „skápar“ eins og við tveir sem taka ákvörðun um hana, og ráðskast jafnframt með framtíð æsku þessa lands.

En það voru nokkrar fullyrðingar í pistli þínum Viðar sem særðu mig, og að auki nokkrar rangfærslur, sem ég verð að fá að leiðrétta, þó að ég ætli ekki að elta ólar við allar sleggjurnar sem þar komu fram.  Því ætla ég að fá að teygja lopann aðeins hér, og vil byrja á Stjörnuvellinum í Garðabæ. Honum hefur verið haldið við eins og fyrir var lagt af framleiðanda knattspyrnugrassins, og samkvæmt mælingum frá síðasta sumri, uppfyllir hann enn þær kröfur sem hann á að uppfylla, og er talinn geta gert það í 2-3 ár í viðbót.  Þetta er því engan veginn ónýtur völlur.  Sú fullyrðing er vanvirðing við Garðbæinga, sem hafa  lagt mikið í uppbyggingu knattspyrnumannvirkja á undanförnum árum!  Ég get hins vegar verið sammála um að það sé betra að vökva knattspyrnugrasvelli, leikurinn verður hraðari, sem er af hinu góða.  En þetta á jafnt við um gras og knattspyrnugras.  Á því er enginn grundvallarmunur.  Hér er kannski verk að vinna og ástæða til að skoða regluverkið.

Verst var þó fullyrðingin um álagsmeiðsli tengd knattspyrnugrasi.  Hér verð ég að endurtaka það sem ég sagði í fyrri pistli, að viðurkenndar samanburðarrannsóknir lækna á vegum FIFA og UEFA hafa sýnt að meiðsli knattspyrnumanna eru ekki tíðari á góðu knattspyrnugrasi.  Ég get meira að segja bætt því við að síðustu tölur sem ég sá hjá FIFA sýndu ívið lægri tölur fyrir knattspyrnugras en náttúrugras, en þó ekki svo mikinn mun að marktækt væri.  Og það var aðeins blæbrigðamunur á meiðslunum en enginn stigsmunur.  Fullyrðingar um hið gagnstæða byggðar á óljósum sögusögnum, og tilvitnunum í ónafngreinda einstaklinga eru ekki mikil vísindi, né eru þær studdar neinum samanburðarrannsóknum.  Þá má ekki gleyma að öll æfingaaðstaða hjá okkur að vetrarlagi er nú á knattspyrnugrasi og því er ekkert til samanburðar yfir þann tíma.  Þessi bætta aðstaða hefur aukið æfingamagnið verulega, sem hlýtur að vera af hinu góða, en eykur jafnframt álagið, sem er eðlilegt.

Þetta var um rangfærslurnar, sárust var hins vegar fullyrðingin um að mannvirkjanefnd KSÍ hefði undir minni stjórn einblínt á knattspyrnugras.  Ég kannast ekki við það.  Ég hefi mínar eigin skoðanir en nefndin hefur ávallt verið mjög fagleg í sinni umfjöllun og vinnu, og m.a. gefið út bæklinga til að efla þekkingu og kunnáttu á ýmsum sviðum, og ekki síst varðandi ræktun grass og uppbyggingu grasvalla.  Um það fjallaði fyrsti bæklingur sem mannvirkjanefnd KSÍ gaf út.  Sama má segja um þann síðasta, veglegan bækling um uppbyggingu og viðhald grasvalla, sem var gefinn út á vegum KSÍ síðastliðinn vetur, og var kynntur á síðasta knattspyrnuþingi.  Nefndin hefur hins vegar aldrei gefið neitt út sérstaklega um knattspyrnugras, en stefnir reyndar að því að gera bragarbót á því sviði, hvað varðar viðhald.  Því vil ég vísa fullyrðingu um hlutdrægni mannvirkjanefndar í þessum málum til föðurhúsanna, sú fullyrðing er einfaldlega röng. Nefndin hefur ávallt stutt við ný eða endurbætt vinnubrögð í uppbyggingu og viðhaldi grasvalla.  Það var t.d. að frumkvæði mínu að sú krafa var sett inn í nýju reglugerðina um knattspyrnuleikvanga, að við endurbyggingu eða byggingu nýrra valla fyrir Pepsi-deildina þá skuli farið fram á að vellirnir séu upphitaðir og með vökvunarkerfi.  Ekki hefur sú framsýni alltaf verið til staðar við nýframkvæmdir og uppbyggingu knattspyrnumannvirkja.  Það er miklu frekar að mannvirkjanefnd hafi ekki staðið sig í stykkinu varðandi kynningu á möguleikum og kostum knattspyrnugrass, og væri kannski full ástæða til að gera þar bragarbót.

Við erum fámenn þjóð sem á að haga sér í samræmi við það, þar er ég Viðari algjörlega sammála, einu sinni enn.  Auðvitað eigum við að reyna að gera keppnisvellina okkar eins góða og unnt er innan þeirra skynsamlegu marka, sem fjármál og kostnaður hljóta að setja.  Hins vegar skil ég ekki röksemdafærsluna í framhaldinu.  Þar er talað um að það eigi að einbeita sér að því að byggja upp 6-7 alvöru velli.  Ég hélt að það væru 12 félög í Pepsi-deildinni, og varla fer þeim fækkandi ef keppnistímabilið lengist.  Ég hef heldur ekki tekið eftir því að það sé mikill vilji fyrir því að samnýta velli í deildinni.  Það verða öll lið í deildinni að vera með velli í lagi, ekki bara „stóru“ félögin sem telja sig vera með áskrift að þessum sætum, og sama má segja um þau félög sem eru næst því að vera þarna uppi.  Og svo er hent fram hugmynd um rafljósakerfi á knattspyrnuvelli.  Slík kerfi eru ekki gefins og rekstrarkostnaður umtalsverður.  Það er líka erfitt að koma auga á þörfina á þeim hér, því að það er ekki birtan sem okkur vantar á vorin heldur hiti, en aðaltilgangur þessara kerfa er að auka birtumagnið inni á dimmum risaleikvöngum.

Að lokum, hver ætli sé besti undirbúningurinn að því ævintýri sem gerist stundum, þegar litli bróðir kemst upp í Pepsi-deildina?  Hér er ég að tala um fjölda knattspyrnufélaga í  minni sveitarfélögum víða um land sem þar sem menn leggja hart að sér við að koma upp sterku knattspyrnuliði, og eiga sér drauma sem kannski eiga eftir að rætast á góðum degi.  Það kemur að því að einhver þessara félaga nái markinu, að koma liðinu upp í efstu deild.  Til að gera það með sóma og geta jafnframt verið viss um að leika alla heimaleikina á heimavelli sínum á fimm, sex eða jafnvel sjö mánaða keppnistímabili, þá er eina skynsamlega lausnin, a.m.k. fyrir mörg þeirra, að byggja upp keppnisvelli með knattspyrnugrasi.  Með þessum orðum set ég punktinn við þennan pistil, og þessa umfjöllun, a.m.k. um sinn.

Jambo – með knattspyrnukveðju frá Kenýa.

Lúðvík S. Georgsson