• 08.11.2010 00:00
  • Pistlar

Viðar Halldórsson um gervigras

Viðar Halldórsson
vidar_halldorsson

Ágætur forystumaður knattspyrnusambandsins Lúðvík S. Georgsson, formaður mannvirkjanefndar KSÍ, gerir gervigras að umræðuefni í pistli á heimasíðu KSÍ þann 4.10.2010, eða réttara sagt umfjöllun umsjónarmanna og sérfræðinga Stöð 2 Sport um leik Stjörnunnar og FH í 20. umferð Pepsideildarinnar. Einnig fjallar hann almennt um kosti svokallaðs “knattspyrnugrass” (knattspyrnugras er í mínum huga náttúrulegt gras og gervigras því einfaldlega gervigras).

Undirritaður hefur á undanförnum árum lýst skoðunum sínum á gervigrasi og oft rökrætt þetta við Lúðvík og það alveg verið kristalklárt að í stórum dráttum erum við ósammála og þá aðallega þegar við erum að tala um keppnisvelli bestu félaganna.

Aðstæður á Stjörnuvelli þann 16. september s.l. voru alls ekki eins og þær eiga að vera í keppni þeirra bestu, gervigrasið er ónýtt þrátt fyrir að vera aðeins 6 ára gamalt og alveg ljóst að ef það hefði verið vökvað þá hefðu aðstæður verið betri, vitanlega á að gera kröfu um að gervigrasið sé vökvað. Í Svíþjóð og Noregi er það gert, þá nýtur tækni leikmanna sín betur en vitanlega eru uppáhaldsaðstæður góðra leikmanna mátulega rakt gras. Umfjöllun sérfræðinganna var réttmæt og ekkert óeðlilegt að kalla ónýtt gervigras plast. Rannsóknir á meiðslum leikmanna hafa farið fram og eins og Lúðvík segir er talið að munstrið hafi breyst en enginn mótmælir því að stamt þurrt gervigras er hættulegt og læknar og sjúkraþjálfarar hér á Íslandi merkja meiri álagsmeiðsli á ungu íþróttafólki á undanförnum árum. Það að segja að bestu lið Evrópu leiki á gervigrasi ef svo ber undir er vitanlega hálfgerð sleggja, þá leiki er hægt að telja á fingrum annarrar handar, félögin óánægð, þau kvarta ekki frekar en Englendingar eða við FH-ingar. Okkur ber að leika þessa leiki.

Knattspyrnusambandið með mannvirkjanefndina í forystu hefur verið vakandi yfir þróun gervigrass á undanförnum árum og er það af hinu góða. Gervigras hefur bætt aðstæður til knattspyrnuiðkunar á Íslandi, gömlu malarvellirnir eru horfnir, en mannvirkjanefndin hefur einblítt allt of mikið á gervigrasið. Gæði náttúrulegs grass hefur aukist verulega á undanförnum árum og ýmsar nýjungar verið þar eins og í gervigrasinu. Þessu ber mannvirkjanefndin að koma á framfæri. Gervigrasvellir innan- og utanhúss til æfinga eru nauðsynlegir með grasvöllunum.

Lúðvík gerir að umtalsefni í pistli sínum vilja sveitarfélaga í Noregi. Er það virkilega svo að knattspyrnuforystan vilji að sveitarstjórnarmenn vítt og breitt um landið taki forystuna í gerð knattspyrnuvalla? Er ekki nær að grasrótin móti þar stefnuna og þá með taldir iðkendurnir? Hugleiðingar Lúðvíks um sjö mánaða keppnistímabil hefur verið rædd. Grasrótin vill ekki fara með efstu deildir inn í knatthúsin. Við viljum leika utandyra sem einfaldlega þýðir að veðurfarið á Íslandi gefur okkur að hámarki 6 mánaða tímabil, frá miðjum apríl fram í miðjan október. Því getum við náð með betri grasvöllum, kostnaður ekki meiri en við lagningu nýrra gervigrasvalla, og vitanlega betri aðstæðum fyrir áhorfendur. Áhorfendur koma ekki á leiki á Íslandi í roki, frosti og snjókomu þrátt fyrir gervigras.

Lúðvík nefnir lönd eins og Noreg og Svíþjóð í pistli sínum. Rétt er það að lönd þessi liggja að hluta til á svipaðri norðlægri breidd og við, en við ættum einnig að horfa aðeins sunnar í Evrópu og skoða nokkur lönd sem leika við erfiðar aðstæður yfir vetrartímann eins og Holland og Belgíu. Allir vellir nema einn (í efstu deild) eru með náttúrulegu grasi. Hvað hafa þeir gert til að leika við bestu aðstæður? Jú, betra gras, betri umhirða, rafrænt sólarljós, undirhiti, yfirbreiðslur, vökvunarkerfi ofl. Það sama á við t.d. um Danmörku. Allir vellir þar í efstu deild eru með náttúrulegu grasi, gæðavellir. Við þetta má síðan bæta að öll þessi þrjú lönd, íbúafjöldi sambærilegur við Noreg og Svíþjóð, 5-10 milljónir,nema Holland (16 milljónir), eru vel ofar en Noregur og Svíþjóð á styrkleikalista félagsliða í Evrópu. Er “plastið” að minnka gæðin? Í mínum huga JÁ.

Við erum fámenn þjóð og verðum að haga okkur í samræmi við það, þannig að við ættum að stefna á að á næstu 5-10 árum verðum við komin með 6-7 knattspyrnuvelli með náttúrulegu grasi, betra gras en nú er, betri umhirðu, rafrænt sólarljós, undirhita, yfirbreiðslur, vökvunarkerfi ofl., undirbygging og efnisval af bestu gerð, góðum aðstæðum fyrir áhorfendur í nálægð við völlinn, þannig getur okkar efsta deild hafist um miðjan apríl og lokið um miðjan október.

Með knattspyrnukveðju

Viðar Halldórsson

formaður FH