• 04.10.2010 00:00
  • Pistlar

UM „PLASTIГ OG MEIÐSLAHÆTTU

Lúðvík Georgsson
LSGmynd

Frábæru knattspyrnusumri er að að ljúka.  Spennan hefur verið mikil á flestum vígstöðvum.  Breiðablik tryggði sér Íslandsbikar karla í fyrsta skipti, eftir blóðuga baráttu fjögurra félaga um titilinn, fram undir það síðasta.  Slík spenna hefur ekki verið í mótinu í fjölda ára.   Blikarnir hafa leikið góða knattspyrnu og eru verðugir meistarar, en bæði FH, meistarar síðustu tveggja ára, og ÍBV, sem kom verulega á óvart í sumar, hefðu getað klárað dæmið, ef heppnin hefði verið með þeim.

Lánið hefur ekki leikið við karlalandsliðið okkar í fyrstu leikjunum í undankeppni EM.  Það er með ólíkindum að liðið hafi hvorki náð stigi gegn Noregi eða Danmörku, eins vel og það lék.  En við verðum að hugga okkur við að þeir ungu piltar sem hafa nú tekið við ábyrgðinni í svo mörgum stöðum liðsins eiga framtíðina fyrir sér og eiga örugglega eftir að lyfta liðinu á hærri stall á næstum árum.  Og ekki má gleyma árangri þessara sömu pilta með U-21 landsliðinu, sem á möguleika á að tryggja sér sæti í úrslitakeppni EM U-21, nokkuð sem við höfum aldrei verið í námunda við áður.  Framtíðin er því vissulega björt.

Það er hins vegar umfjöllunin um Pepsídeild karla í sjónvarpinu sem er ástæðan fyrir þessum pistli.  Þættirnir Pepsímörkin hjá Stöð 2 Sport og Íslenski boltinn hjá RÚV eru almennt mjög vel heppnaðir.  Ekki bara til að sýna mörkin heldur eru þeir tækifæri til að skoða nánar ýmis eftirminnileg atvik úr leikjunum og ákvarðanir dómara.  Hér hafa menn oft sterkar skoðanir og sýnist sitt hverjum en þannig skal það gjarnan vera og kryddar bara þættina.

Það er hins vegar öllu verra þegar menn ganga skrefinu lengra og bera á borð hreinar sleggjur og fordóma, og að ég ekki tali um rangfærslur.  Það verður því miður að segjast um það orðbragð sem annars ágætir umsjónarmenn og spekingar hjá Stöð 2 Sport nota um knattspyrnugrasið (gervigrasið) á Stjörnuvelli í Garðabæ.  Og hér tók steininn úr þegar fjallað var um 20. umferðina, sem var leikinn þann 16. september sl.  Þar var talað hástemmt um slæmt yfirborð og að það væri skandall að völlurinn hefði ekki verið vökvaður.  Og í framhaldi af því komu fullyrðingar um meiðslahættu við að leika á vellinum og fleira í þeim dúr.  Áhorfendur þáttarins gátu ekki túlkað þetta öðruvísi en að það væri óskiljanlegt að það væri almennt leikið á þessum velli. 

Knattspyrnugras, eða „plastið“, eins fjölmiðlamenn hafa stundum uppnefnt það, hefur verið löglegt undirlag í öllum alþjóðlegum keppnum í 6-8 ár, ef það uppfyllir ákveðna staðla, og  í dag er það notað í leikjum í Evrópukeppni milli toppliða í Evrópu ef svo ber undir.  Knattspyrnugrasið í Garðabæ er vissulega ekki alveg nýtt, en það eru þó ekki nema 6 ár síðan það var lagt og það var af bestu gerð þegar það var lagt.  Það er eðlilegt að gera ráð fyrir 8-10 ára endingartíma slíks yfirborðs til keppni, a.m.k. ef því er vel við haldið, sem á við um grasið í Garðabæ.  Knattspyrnugras af nákvæmlega sömu gerð var t.d. lagt á Luzhniki leikvanginn í Moskvu árið 2002, og ekki kvörtuðu Englendingar þegar þeir léku þar mikilvægan landsleik við Rússa haustið 2007, þó að þeir töpuðu leiknum.

Það er vissulega til bóta að vökva knattspyrnugras fyrir leiki, slíkt gerir leikinn hraðari og það hentar leikmönnum með góða tækni, alveg eins og vökvun venjulegs grass.  Þess er þó ekki krafist, frekar en þess er krafist að venjulegt gras sé vökvað í þurrkatíð.  Á þessu er í raun lítill munur.  Og ýtarlegar rannsóknir síðustu ára sýna að á knattspyrnugrasi, sem uppfyllir þá staðla sem nú gilda, er meiðslahættan engu meiri en á venjulegu grasi.  Meiðslamunstrið er reyndar lítillega öðruvísi en heildarniðurstaðan algjörlega sambærileg.

Undirritaður vill beina því til þeirra aðila sem um þessi mál fjalla að þeir haldi sig við staðreyndir. Öll erum við sammála um að gott náttúrlegt gras er besta yfirborðið á knattspyrnuvelli, en á Íslandi er það því miður aðeins bundið við 3-4 mánuði eftir veðurfari.  Knattspyrnugrasið er því komið til að vera.

Og það er reyndar með ólíkindum hvað íhaldsemin er mikil hér á landi, miðað við nágrannalöndin sem eru á svipaðri breiddargráðu.  Í Noregi er helmingur keppnisvalla í efstu tveimur deildum karla nú með knattspyrnugrasi, og í Svíþjóð um þriðjungurinn, og reyndar er það á öllum keppnisvöllum sem eru nálægt því að vera á sambærilegri breiddargráðu og Ísland, nema hjá Rosenborg í Þrándheimi sem í staðinn styrkir grasið með gervigrasþráðum.  Í Noregi er staðan slík að vellir með náttúrugrasi eru ekki lengur styrktir af opinberum aðilum.  Og hver er ástæðan?  Í fyrsta lagi þykir nýting fjármagns og lands einfaldlega of léleg.  Norðmenn (!!!) hafa ekki efni á slíku.  Vellir með knattspyrnugrasi taka við margfaldri notkun miðað við náttúrugras, og þá er hægt nota allt árið, eða svo gott sem, án þess að á þeim sjái.  Þannig var árið 2008 aðeins byggður 1 knattspyrnuvöllur  með náttúrlegu grasi af um 100 völlum sem voru byggðir í Noregi það árið.  Í öðru lagi er það skoðun margra knattspyrnuforystumanna þar að lenging keppnistímabilsins sé einn mikilvægasti þátturinn í því að lið geti orðið samkeppnishæfari í alþjóðavettvangi.  Og keppnistímabil sem nær yfir 7-8 mánuði næst ekki nema með knattspyrnugrasi á keppnisvöllunum, a.m.k. ekki á norðlægum slóðum, þrátt fyrir hlýnun jarðar.

Stutt keppnistímabil er í dag okkar helsti akkillesarhæll.  Deildarbikarinn er nú aðeins hluti af undirbúningstímabilinu, og því þurfum við að gera allt til að að lengja keppnistímabilið, og um leið stytta undirbúningstímabilið sem er það langlengsta í heimi. Það er nefnilega miklu skemmtilegra að leika alvöruleiki, jafnvel á vorin, heldur en að puða á ofurlöngu undirbúningstímabili.  Við núverandi veðurfar getum við auðveldlega lengt keppnistímabilið í 7 mánuði, eða jafnvel 7½  mánuð eins og Færeyingar, þ.e. leikið frá aprílbyrjun til októberloka, en þá verðum við að vera reiðubúin að skoða möguleika á því að leggja knattspyrnugras á keppnisvellina. Auðvitað lendum við í slæmum veðrum einstaka sinnum á vorin og haustin, en það verður bara að hafa það. Hinn kosturinn er að leika hluta Íslandsmótsins inni í knattspyrnuhúsunum, sem er einnig skoðunar virði.

Það er kominn tími fyrir nýja hugsun í þessu, þannig að við getum leikið fleiri keppnisleiki á ári hverju og lengt keppnistímabilið á Íslandi. 

Með knattspyrnukveðju

Lúðvík S. Georgsson