• 11.05.2010 00:00
  • Pistlar

Ávallt leikið til sigurs

Geir Þorsteinsson
Geir_Torsteinsson_1
Íslandsmótið í knattspyrnu, það 99. í röðinni, er sem fyrr vettvangur þúsunda leikmanna sem ganga til leiks í skemmtilegri íþrótt fullir bjartsýni og gleði. Keppnin er hafin og þrotlausum æfingum er lokið. Sumir eru að stíga sín fyrstu skref á þessum vettvangi meðan aðrir hafa langa sögu að baki. Það eru töfrar leiksins sem gera það að verkum að margir tengjast knattspyrnunni órjúfanlegum böndum  frá unga aldri og sumir gera það   fyrir  lífstíð. Það er hlutverk okkar allra sem unnum íslenskri knattspyrnu að koma fram af virðingu og heiðarleika í kappi við mótherja okkar utan sem innan vallar þó ávallt sé leikið til sigurs. Spennan í upphafi móts er mikil sem og væntingar leikmanna og stuðningsmanna. Þetta verður árið okkar - hugsa margir og segja - meðan aðrir segja fátt en stefna á sigur á hverjum leik. Hvert nýtt mót býður upp á ný tækifæri og alltaf gerist eitthvað óvænt þó að hinir svokölluðu stóru bikarar endi oft á kunnulegum slóðum.
 
Mikið starf hefur farið fram innan aðildarfélaga KSÍ til undirbúnings kappleikja sumarsins. Hið sama má segja um stjórn, nefndir og skrifstofu KSÍ en á þeim vettvangi hefur verið unnið að mótum sumarins allt frá því að síðasti leikur var flautaður af á sl. ári. Það er metnaðarmál allra að sú festa sem einkennt hefur mótahald KSÍ verði áfram til staðar og knattspyrnumótin haldi áfram að vera vinsæl meðal almennings sem á hverju ári hefur fjölmennt á völlinn. Árangur af skipulögð og öflugu starfi KSÍ og aðildarfélaga má hvarvetna sjá. Iðkendur eru fleiri, leikir eru fleiri, áhorfendum fjölgar, aðstaða batnar og svo mætti lengi telja. Íslensk knattspyrna og mótin eru snar þáttur í íslensku samfélagi - sér í lagi að sumri og varla er það samfélag að finna á Íslandi að ekki fari fram þar leikir í knattspyrnu. Þannig er knattspyrnan hin eina sanna þjóðaríþrótt Íslendinga.
 
Ég vil óska leikmönnum, dómurum, þjálfurum og öðrum starfsmönnum félaga góðs knattspyrnusumars. Forystumönnum og öðrum sjálfboðaliðum óska ég heilla í þeirra mikilvægu störfum. Ég hvet stuðningsmenn að mæta á völlinn og styðja við bakið á sínu liði - á jákvæðan hátt. Samstarfsaðilum færi ég þakkir fyrir ómetanlegan stuðning um leið og ég óska eftir góðu samstarfi við fjölmiðla sem hafa það mikilvæga hlutverk að flytja fréttir af gangi mál á hlutlausan en líflegan hátt.