• 04.01.2010 00:00
  • Pistlar

Kveðja frá KSÍ

Hrafnkell Kristjánsson
Hrafnkell-Kristjansson

Á jóladag bárust þær fregnir að Hrafnkell Kristjánsson, íþróttafréttamaður, hafi látist eftir erfiða legu á sjúkrahúsi í kjölfar umferðaslyss stuttu fyrir jólahátíð. Hrafnkell hóf ungur að leika knattspyrnu með félagi sínu FH og lék fyrir hönd félagsins í yngri flokkum og meistaraflokki. Hann var efnilegur knattspyrnumaður og lék marga leiki fyrir U17 og U19 landslið Íslands. Knattspyrnuíþróttin stóð honum ávallt nærri og ekki minnkuðu tengsl hans við knattspyrnuhreyfinguna þegar hann hóf störf sem íþróttafréttamaður á RÚV.

KSÍ gaf út rétt fyrir jól bókina Bikardraumar sem fjallar um 50 ára sögu bikarkeppninnar. Bókinni fylgir mynddiskur með sjónvarpsefni frá úrslitaleikjum þessara 50 ára og hafði Hrafnkell umsjón með því verki hjá RÚV. Hann hafði því nýlokið gerð heimildarþáttar um bikarkeppni KSÍ sem sýnir vel þann hug sem Hrafnkell bar til íslenskrar knattspyrnu.

Knattspyrnuhreyfingin hefur misst öflugan liðsmann við fráfall Hrafnkels Kristjánssonar og ekki síst FH en Hrafnkell var mikill stuðningsmaður félagsins. Við minnumst Hrafnkels sem öflugs málsvara knattspyrnunnar, íþróttar sem hann unni og iðkaði allt sitt líf, og sinnti af ástríðu í gegnum starf sitt sem íþróttafréttamaður hjá RÚV.  Við kveðjum góðan dreng með söknuði en sviplegt fráfall hans hefur snert okkur öll.  KSÍ og aðildarfélög senda fjölskyldu Hrafnkels og aðstandendum hans innilegar samúðarkveðjur.  Hugur okkar er hjá ykkur.