• 13.09.2009 00:00
  • Pistlar

Magnaður september

Þórir Hákonarson
Torir_Hakonarson_2007

Það hefur verið nóg um að vera hjá landsliðunum okkar fyrri hluta septembermánaðar og óhætt að segja að árangurinn úr þessum verkefnum hafi verið frábær.  Fimm sigrar í átta leikjum, þar af þrír á einum og sama deginum – 9. september, tvö jafntefli og aðeins eitt tap.

U17 landslið kvenna reið á vaðið með markalausu jafntefli við Þjóðverja í undankeppni EM, í leik sem fram fór á Vodafone-vellinum í Reykjavík.  Úrslit leiksins, markalaust jafntefli, voru í raun stórmerkileg.  Þetta er í þriðja sinn sem EM U17 landsliða kvenna er haldin og hampaði Þýskaland Evrópumeistaratitlinum í bæði skiptin.  Ekki nóg með það, heldur vann liðið hvern einasta leik sinn í keppninni þessi tvö ár, bæði í undankeppni, milliriðlum og í lokakeppninni sjálfri.  Úrslitaleik keppninnar fyrr á þessu ári, gegn Spánverjum, unnu þær þýsku með 7 mörkum gegn engu.  Þannig að 0-0 jafnteflið gegn Íslandi í byrjun þessa mánaðar var fyrsti leikurinn í EM sem Þýskaland vinnur ekki, og voru viðbrögð leikmanna þýska liðsins eftir leikinn augljós vitnisburður um vonbrigðin.

Næstir voru það liðsmenn A-landsliðs karla, sem mættu frændum okkar Norðmönnum í lokaleik Íslands í undankeppni HM 2010.  Strákarnir okkar léku sinn besta leik í langan tíma og þóttu afar óheppnir að ná ekki að landa þremur stigum úr leiknum.  Liðið lék feiknagóðan fótbolta, boltinn fékk að ganga vel manna á milli og leikmenn virtust njóta sín vel.  Stemmningin á vellinum var stórkostleg, ekki síst hjá Tólfunni, sem er sérstakur stuðningsmannahópur íslenska landsliðsins.  Í þakklætisskyni fyrir þennan frábæra stuðning gáfu liðsmenn landsliðsins Tólfumönnum 150 miða á næsta leik liðsins, sem var vináttulandsleikur gegn Georgíu fjórum dögum eftir Noregsleikinn.  Tólfumenn þökkuðu kærlega fyrir sig og fjölmenntu á Georgíuleikinn.  Stemmningin var frábær, og langþráður sigur vannst.  Þegar allir leggja sitt af mörkum er ekki hægt annað en að ná árangri.

Leikmenn karlalandsliðsins gáfu sér einnig tíma til ýmissa annarra verka en að æfa og keppa í knattspyrnu.  Nokkrir landsliðsmenn heimsóttu Laugarnesskóla og léku þar knattspyrnu með fötluðum knattspyrnumönnum.  Þessi viðburður var liður í Sparkvallaátaki KSÍ og Íþróttafélags fatlaðra.  Einnig árituðu allir leikmenn liðsins landsliðstreyju og gáfu lítilli hetju, hinni 9 ára gömlu Alexöndru Líf, sem berst harðri baráttu við erfiðan sjúkdóm.  Það gleymist stundum að lífið er ekki dans á rósum hjá öllum og ef landsliðsmennirnir geta glatt lítil hjörtu með einhverjum hætti, þá gera þeir það með glöðu geði.

U19 landslið karla gerði svo sannarlega góða ferð til Skotlands og vann þar tvo góða sigra í vináttulandsleikjum við heimamenn.  Þá vann U21 landslið karla stórsigur á Norður-Írum á útivelli í undankeppni EM.  Leikmenn Íslands léku afar vel í öllum þessum leikjum, voru vel að sigri komnir og sýndu svo sannarlega að ekki ætti að verða skortur á góðum íslenskum knattspyrnumönnum í nánustu framtíð.

Stúlkurnar í U17 landsliði kvenna áttu svo lokaorðið í þessari landsleikjahrinu.  Þær höfðu reyndar tapað naumlega gegn Frökkum eftir jafnteflið gegn Þjóðverjum, en luku þessari undankeppni EM með 7-0 stórsigri á Ísraelum.  Knattspyrna kvenna á Íslandi hefur verið á hraðri siglingu upp á við síðustu ár og miðað við þessa frammistöðu mun ekki verða lát á þeirri siglingu.

Landsliðsverkefnum septembermánaðar er þó ekki lokið þegar þetta er skrifað, því EM-stelpurnar okkar í A-landsliði kvenna mæta Eistlandi í öðrum leik sínum í undankeppni HM 2011 þann 17. september, á Laugardalsvellinum.  Vonandi sjá sem flestir sér vert að  mæta og styðja við bakið á stelpunum, sem eru staðráðnar í að komast í úrslitakeppnina í Þýskalandi.  Tólfan verður klárlega á staðnum.  Ætlar þú að mæta?

Áfram Ísland!

Þórir Hákonarson

Framkvæmdastjóri KSÍ