• 14.08.2009 00:00
  • Pistlar

Með stjörnur í augum

Ingibjörg Hinriksdóttir
Ingibjorg_Hinriksdottir1

Það hefur sjálfsagt ekki farið framhjá neinum að kvennalandsliðið í knattspyrnu er meðal þátttakenda í úrslitakeppni Evrópumótsins sem fram fer í Finnlandi í lok ágúst. Frá því að markmiðið náðist á ísilögðum Laugardalsvellinum síðasta haust hefur KSÍ unnið öruggum höndum að því að vanda til allra verka í undirbúningi liðsins með það að markmiði að hámarka árangur stelpnanna þegar á hólminn er komið. Frammistaða liðsins og þeirra sem að því standa hefur vakið mikla athygli innanlands sem utan, enda er það ekki sjálfgefið að Ísland eigi fulltrúa í úrslitakeppni EM í þessari vinsælustu íþrótt í heimi.

Erlendis hafa knattspyrnumiðlar gert liðinu góð skil og sjaldan eða aldrei hafa íslenskar knattspyrnukonur átt jafnmikla möguleika á að spreyta sig í keppni erlendis og einmitt nú. En athyglin hér heima hefur verið hreint mögnuð og hafa fjölmiðlamenn keppst við að bera lof á stelpurnar, bæði sem einstaklinga og sem lið. Hámarkinu var náð þann 14. ágúst sl. þegar heimildarmyndin „Stelpurnar okkar“ var frumsýnd í Háskólabíói. Þessum áhuga ber að fagna, ekki aðeins vegna kynningarinnar heldur einnig vegna þess að nú gefst ungum íslenskum knattspyrnustúlkum og -drengjum færi á að eiga sér margar og góðar fyrirmyndir hér heima.

Kannanir hafa sýnt að fyrirmyndir og markmiðasetning í íþróttum skipta gríðarlega miklu máli. Í dag njóta ungir knattspyrnuiðkendur þess að geta horft jafnt til Eiðs Smára Guðjohnsen og Margrétar Láru Viðarsdóttur, Gunnleifs Gunnleifssonar og Guðbjargar Gunnarsdóttur í leit sinni að fyrirmyndum. Það fer ekki framhjá neinum sem mætt hefur á hin ýmsu hraðmót í knattspyrnu í sumar að fyrirmyndir ungra iðkenda eru bæði konur og karlar. Hvar sem landsliðsfólk okkar kemur eru þau umkringd af ungu fólki sem vill fá eiginhandaráritanir og horfa með stjörnur í augum á þessar frábæru fyrirmyndir.

En leið liðsins að markmiði sínu hefur ekki verið neinn dans á rósum, þvert á móti hefur hún verið löng og ströng og þó stærstu ljónunum hafi verið rutt úr vegi á síðustu misserum þá býr mun lengri undirbúningur að baki.  Ég vil rekja þessa baráttu aftur til  níunda áratugarins þegar nokkrar áhugakonur um knattspyrnu kvenna stofnuðu Hagsmunasamtök knattspyrnukvenna, HKK. Meginmarkmið samtakanna var að endurvekja kvennalandsliðið sem lagt hafði verið niður haustið 1987, krefjast þess að félagsliðin í efstu deild fengju að leika á grasvöllum og í grastakkaskóm og velta úr vegi fordómum gagnvart konum í knattspyrnu, en auk þess lögðu samtökin áherslu á að umfjöllun fjölmiðla um knattspyrnu kvenna yrði aukin. Fyrstu árin var baráttan ströng en með framsýni á skrifstofu KSÍ að leiðarljósi kom að því að starfsemi HKK lognaðist smátt og smátt útaf en samtökin hafa þó aldrei verið formlega lögð niður.

Stórum áfanga hefur verið náð en stelpurnar okkar hafa þegar sett sér nýtt markmið, þær eru ekki að fara á Evrópumótið til þess eins að taka þátt, þær vilja ná enn lengra. Til þess að svo megi verða þurfa allir að stefna að þessu sama marki, ekki aðeins leikmennirnir, þjálfararnir og þeir sem að liðinu standa, heldur einnig þú lesandi góður og allir hinir. Við þurfum að standa saman, taka eitt skref í einu og setja okkur markmið. Stöndum öll að baki stelpunum, mætum á völlinn og hrópum ÁFRAM ÍSLAND!!

Ingibjörg Hinriksdóttir,
formaður útbreiðslunefndar KSÍ