• 13.07.2009 00:00
  • Pistlar

Nútíðin er þeirra

Ingibjörg Hinriksdóttir
Ingibjorg_Hinriksdottir1

Laugardaginn 11. júlí hélt U19 ára stúlknalandsliðið til Hvíta Rússlands þar sem liðið tekur þátt í úrslitakeppni EM. Er þetta í fyrsta sinn sem íslenska U19 ára landsliðið vinnur sér þátttökurétt í úrslitunum en Ísland var gestgjafi þessa sama móts árið 2007 og þá tók íslenska liðið þátt í úrslitunum í fyrsta sinn.

Ferðalag hópsins í úrslitakeppnina hefur verið ævintýri líkast. Stúlkurnar drógust í undanriðil með Ísrael, Grikklandi og Írlandi, þar sem leikið var í Ísrael. Þar stóð liðið sig frábærlega, unnu góða sigra á Grikkjum og Ísraelum en lutu í lægra haldi fyrir grönnum okkar frá Írlandi. Sú niðurstaða þýddi að Ísland var með í pottinum þegar dregið var í milliriðla. Þar dróst Ísland í hóp með Dönum, Svíum og Pólverjum og var milliriðillinn leikinn í Póllandi sl. vor.

Fyrirfram voru vonir og væntingar íslenska liðsins í milliriðlinum hóflegar, jú auðvitað byrjum við með ellefu leikmenn gegn ellefu og staðan jöfn 0-0. En þjóðir eins og Danir og Svíar hafa oftar en ekki verið okkur erfiðar og stelpurnar vissu að þær þurftu að eiga toppleiki til þess að ná markmiði sínu, að komast í úrslitakeppni EM í Hvíta Rússlandi. Og það tókst. Danir lágu í valnum, 3-2, í fyrsta leik á meðan Svíar og Pólverjar skildu í markalausu jafntefli og Ísland var í efsta sæti riðilsins. Þá mættum við Svíum þar sem hvorugu liðinu tókst að skora meðan Danir mörðu Pólverja 1-0 og enn var íslenska liðið á toppnum. Þegar liðin fjögur lögðu í síðustu leiki sína þriðjudaginn 28. apríl var ljóst að öll áttu þau möguleika á að komast í úrslitakeppnina og spennan var gífurleg.

Íslenska liðið gat með sigri tryggt sér efsta sæti riðilsins og jafntefli gat dugað færi svo að Svíar ynnu sigur á Dönum með einu marki. Markalaust var í leikhléi hjá okkar stúlkum en á sama tíma skoruðu Svíar gegn Dönum og voru þar með farnar að sækja að möguleikum okkar liðs. Það syrti verulega í álinn hjá okkar liði þegar þær lentu tveimur mörkum undir um miðjan síðari hálfleikinn gegn Pólverjum en á sama tíma fengum við þær fréttir að enn væri sama staða í leik Dana og Svía. Thelma Björk Einarsdóttir skoraði þá (í minningu afa síns sem lést daginn áður) gull af marki á 69. mínútu og okkar lið þurfti aðeins eitt mark til þess að tryggja sig áfram í úrslitin. Stelpurnar okkar sóttu látlaust að pólska markinu. Baráttan, krafturinn og viljinn var hreint magnaður í íslenska liðinu og að lokum uppskáru stúlkurnar eins og til hafði verið sáð. Berglind Björg Þorvaldsdóttir skoraði þegar aðeins 3 mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma og við tóku einherjar mest spennandi mínútur sem undirrituð hefur upplifað á knattspyrnuvellinum. Lyki leikjunum svona tæki Ísland þátt í úrslitakeppni EM U19 í annað sinn á þremur árum!

Og það tókst!

Ísland vann riðilinn, hlaut jafnmörg stig og Svíþjóð en þar sem innbyrðis leik liðanna lauk með jafntefli og bæði lið með eitt mark í plús þá hreppti Ísland efsta sætið á fleiri mörkum skoruðum. Fimm íslensk mörk gegn einu sænsku. Svíar hlutu þó uppreist æru þar sem liðið var áttunda lið inní úrslitakeppnina sem besta lið í 2. sæti. Og ekki nóg með það Svíar drógust í riðil með Íslandi í úrslitakeppninni, ásamt Englendingum og Norðmönnum.

Í stúlknalandsliðinu eru framtíðar A-landsliðskonur Íslands. Þátttaka í úrslitakeppni EM U19 veitir þeim dýrmæta reynslu til þess að takast á við þá þraut að fylgja eftir frábærum árangri A-landsliðsins á alþjóðavettvangi.

Ég er eldri en tvívetra í þessum bransa og veit að með leikmenn eins og þá sem nú halda í austurveg eru allir vegir færir fyrir íslenska knattspyrnu og íslenskar knattspyrnukonur. Nútíðin er þeirra og það er framtíðin líka.

Áfram Ísland!

Ingibjörg Hinriksdóttir
formaður unglinganefndar kvenna