• 15.06.2009 00:00
  • Pistlar

Niðurstöður KINE prófs sláandi

Ingibjörg Hinriksdóttir
Ingibjorg_Hinriksdottir1

Fimmtudaginn 4. júní sl. hélt KSÍ fund með þjálfurum og leikmönnum U19 landsliðs kvenna. Tilgangur fundarins var að kynna niðurstöður KINE prófs sem leikmenn U19 ára landsliðsins gengust undir í febrúar sl. Prófin eru forvarnarpróf vegna krossbandaslita en slík meiðsli eru algengari meðal knattspyrnukvenna en -karla. Leikmennirnir sem tóku þátt í prófinu voru sérstaklega boðaðir til fundarins ásamt þjálfurum sínum en á heimasíðu KSÍ kom einnig fram að áhugasamir væru  boðnir velkomnir á fundinn.

Á fundinum skýrði Einar Einarsson, sjúkraþjálfari og starfsmaður Kine, niðurstöðurnar en samkvæmt þeim er helmingur þeirra 22ja leikmanna sem prófaðir voru í febrúar í aukinni hættu á því að slíta krossbönd, sjö leikmenn eru á mörkunum en aðeins 4 leikmenn reyndust vera í minnsta áhættuhópnum. Þessar niðurstöður eru í samræmi við mælingar KINE á unglingum í aldursflokknum 13-19 ára.

Prófið er tvíþætt og þannig framkvæmt að leikmaðurinn stendur uppá kassa sem er ríflega 30 cm að hæð.   Fyrst lætur leikmaðurinn sig falla niður af pallinum og strax eftir lendingu á jörðinni er leikmaðurinn beðinn um að hoppa upp eins hátt og hann getur. Leikmaðurinn hefur merki á sér og athöfnin er tekin upp með einni eða tveimur videomyndavélum síðan  eru breytur (hreyfingar og afstaða punktanna)  í  lendingunni  mældar í tölvuforriti KINE, þ.e. hornin sem myndast í hné og mjöðm.

Rannsóknir hafa sýnt að nái þátttakendur ekki ákveðnu horni á mjöðm og  hnjám  í lendingu geti þeir átt í meiri hættu en aðrir að slíta krossbönd. Einnig er mælt bil milli hnjáa í lendingunni en stúlkum sérstaklega hættir til að lenda þannig að hnén allt að því snertast í lendingu, þau verða „kiðfætt“. 

Einar sýndi fundargestum nokkrar fyrirbyggjandi æfingar sem gott er að kunna og setja inní hefðbundið æfingaplan,  en slík æfingaprógrömm hafa skilað góðum árangri við fækkun krossbandameiðsla erlendis,  séu æfingar stundaðar með reglubundnum hætti.

Sú sem þetta ritar átti þess kost að fylgjast bæði með mælingunum þegar þær áttu sér stað í febrúar sem og að sitja fundinn þann 4. júní. Voru niðurstöðurnar að mínu mati sláandi og greinilegt að mikið verk er enn óunnið hvað þetta varðar. Því er hins vegar ekki að neita að mæting þjálfara á fundinn var með afbrigðum slök, en aðeins einn þjálfari, Freyr Alexandersson þjálfari Vals, sá sér fært að mæta á fundinn auk þeirra Ólafs Þórs Guðbjörnssonar þjálfara U19 ára landsliðsins og Gary Wake aðstoðarþjálfara og þjálfara Breiðabliks.

Á fundinum skýrði Einar Einarsson frá því að árlegur kostnaður þjóðfélagsins vegna aðgerða og rannsókna við krossbandaslit sé um 200 milljónir króna auk kostnaðar við endurhæfingu og vinnutaps. Það er því ekki aðeins mikilvægt fyrir leikmennina, þjálfarana og félögin að gera það sem hægt er að fyrirbyggja krossbandaslit heldur er það einnig þjóðhagslega mikilvægt að draga eins og mögulegt er úr þeim kostnaði sem slíkum meiðslum fylgja. Það er von mín að þjálfarar og leikmenn leggi áherslu á fyrirbyggjandi aðgerðir og dragi með því úr hættunni á krossbandaslitum, sem og öðrum íþróttameiðslum.

Nánari upplýsingar um prófið og ráðleggingar veitir Einar Einarsson, einar@kine.is.  

Áfram Ísland,
Ingibjörg Hinriksdóttir,
formaður unglinganefndar kvenna