• 27.04.2009 00:00
  • Pistlar

Menntun þjálfara

Ingibjörg Hinriksdóttir
Ingibjorg_Hinriks

Það hefur ekki farið framhjá forsvarsmönnum knattspyrnudeilda og knattspyrnuþjálfurum að KSÍ hefur á undanförnum árum lagt mikla áherslu á menntun þjálfara. Samfara aukinni áherslu á framboð námskeiða og skipulag þeirra hefur aðsókn á námskeiðin stóraukist. Alls hafa 333 þjálfarar á Íslandi lokið KSÍ B gráðu eða hærri.  Af þeim hafa 128 þjálfarar lokið KSÍ B gráðu, 82 þjálfarar hafa lokið V. stiginu, 32 þjálfarar hafa lokið VI. stigi og 79 hafa lokið KSÍ A gráðu sem er hæsta þjálfarastig sem KSÍ kennir. Þar fyrir utan eru 9 þjálfarar á Íslandi með UEFA A gráðu og tveir hafa lokið UEFA Pro sem er æðsta gráða sem hægt er að fá í gegnum UEFA menntunarkerfið.

KSÍ hefur lagt á það áherslu að fara með ýmis námskeið út á land en eftir sem áður er megináhersla þjálfunarmenntunar KSÍ í höfuðstöðvum sambandsins í Laugardal.

Áhersla á barna- og unglingaþjálfun

Á ársþingi KSÍ í febrúar var samþykkt að skipa milliþinganefnd um knattspyrnuþjálfun barna. Á fyrsta fundi nefndarinnar kom fram að vöntun er á vettvangi fyrir þjálfara til að ræða barna- og unglingaþjálfun en þjálfarakerfi UEFA miðar að því að útskrifa þjálfara meistaraflokka. Markmið fræðslunefndar KSÍ er að á næstu misserum verið unnið að því að taka upp UEFA A Youth gráðu sem kynnt var á þjálfararáðstefnu UEFA í september 2007.

Fimmtudaginn 16. apríl, kom til landsins svissneskur knattspyrnuþjálfari, Martin Andermatt, og hélt hann námskeið er sérstaklega var ætlað þjálfurum barna á aldrinum 6-12 ára.  Námskeiðin fóru fram á Akureyri og í Kópavogi og tókust mjög vel en Martins hingað var  í samstarfi við Alþjóða knattspyrnusambandið, FIFA.

Áhugasama þjálfara minni ég einnig á fræðsluvef KSÍ og Training Ground hlutann á vefsíðu UEFA þar sem er að finna margvíslegan fróðleik um þjálfun barna, unglinga og fullorðinna.

Fræðslufundaröð

Í vor hefur KSÍ bryddað uppá þeirri nýjung að efna til fræðslufundarraðar sem er ætluð framkvæmdastjóra og aðra stjórnendur knattspyrnufélaga. Fyrsti fundurinn var haldinn sl. þriðjudag, 14. apríl en alls verða fundirnir fjórir og lýkur þeim 7. maí nk. Á fundunum verður m.a. farið yfir samskipti við fjölmiðla, öryggismál, rekstur og bókhald, samninga og félagaskiptamál og síðasti fundurinn verður um dómgæslu og knattspyrnulögin. Vonumst við til þess að forsvarsmenn félaga sýni þessu framtaki áhuga og verði duglegir að mæta á fundina.

Ingibjörg Hinriksdóttir

formaður fræðslunefndar