• 16.04.2009 00:00
  • Pistlar

Hagsmunir íþrótta í aðdraganda kosninga

Þórir Hákonarson framkvæmdarstjóri KSÍ
Thorir_Hakonarson

Nú styttist í að landsmenn gangi til kosninga til alþingis og mikilvægt að knattspyrnuhreyfingin og íþróttahreyfingin öll komi á framfæri hagsmunamálum sínum sem ekki mega gleymast í allri þeirri umræðu um skiptingu fjármuna sem nú er uppi. 

Ferðasjóður íþróttafélaga var settur á laggirnar árið 2007 með samþykkt ríkisstjórnar Íslands og náðist þar með mikilvægur áfangi í áralangri baráttu íþróttahreyfingarinnar fyrir jöfnun kostnaðar vegna þátttöku íþróttamanna í keppni innanlands.  Ferðasjóðnum er ætlað að jafna aðstöðumun og efla íþrótta- og forvarnarstarf, í samræmi við tillögur nefndar sem menntamálaráðuneytið fól á sínum tíma að fjalla um ferðakostnað íþróttafélaga.

Úthlutað hefur verið úr sjóðnum í tvígang vegna ferðakostnaðar íþróttafélaga, fyrst 30 milljónum vegna ársins 2007 og síðan 59 milljónum króna vegna ársins 2008.  

Jöfnun ferðakostnaðar er mikilvægt hagsmunamál íþróttahreyfingarinnar og er liður í stuðla að framgangi íþrótta um allt land.  Það er hreint og klárt byggðamál að víkja úr vegi þeim hindrunum sem takmarka þátttöku í keppni vegna búsetu iðkenda.  Ferðasjóður íþróttafélaga er ekki aðeins mikilvægur íþróttahreyfingunni í landinu, hann hefur gríðarlega jákvæð áhrif á samfélagið allt, ekki síst í dreifðu byggðum landsins.

Knattspyrnusamband Íslands hvetur frambjóðendur til alþingis á þessu vori að kynna sér málið nánar og beita sér fyrir því að framlög í ferðasjóð íþróttafélaga verði hækkuð í:

  1. 90 milljónir á árinu 2009 eins og fyrirheit höfðu verið gefin um.  Tekið verði tillit til þess í því sambandi að stuðningur atvinnulífsins til íþróttahreyfingarinnar hefur minnkað svo um munar vegna efnahagsástandsins.
  2. 200 milljónir í áföngum og nái því markmiði eigi síðar en árið 2012.

Jöfnun ferðakostnaðar er réttlætismál sem þingmenn og ríkisstjórn eru hvött til að fylgja eftir með auknu framlagi til ferðasjóðs íþróttafélaga.

Ferðasjóður íþróttafélaga er mikilvægt hagsmunamál íþróttahreyfingarinnar allrar og treystum við á að aðildarfélög KSÍ komi því á framfæri við frambjóðendur og framboð á hverjum stað fyrir kosningar og komi málinu þar með á dagskrá sem víðast. 

Þórir Hákonarson

framkvæmdastjóri KSÍ