• 06.03.2009 00:00
  • Pistlar

Sameinumst gegn fordómum

Ingibjörg Hinriksdóttir
Ingibjorg_Hinriks

Dagana 3. og 4. mars sl. átti ég þess kost að sækja 3. ráðstefnu Evrópska knattspyrnusambandsins og fleiri aðila um kynþáttafordóma, Unite Against Racism, sem haldin var í Varsjá í Póllandi. Var ráðstefnan ákaflega fróðleg en þó við hér á Íslandi teljum okkur ágætlega sett varðandi fordóma af ýmsu tagi þá megum við ekki sofna á verðinum og því er ráðstefna sem þessi þörf og gagnleg fyrir knattspyrnuforystuna.

Á undanförnum árum hefur stjórn KSÍ sett sér markmið sem ætlað er að draga úr og koma í veg fyrir fordóma af ýmsu tagi. Má þar m.a. nefna að:

  • KSÍ hefur nýlega orðið þátttakandi í grasrótarverkefni UEFA og í gegnum það er m.a. unnið að því að fjölga möguleikum minnihlutahópa til þátttöku í knattspyrnu.
  • KSÍ hefur komið á fót jafnréttisnefnd sem hefur það markmið að vinna gegn öllu misrétti, hvort sem það er misrétti kynja, kynþátta, milli trúarbragða, kynhneigðar o.s.frv. Á síðasta ársþingi veitti stjórn KSÍ tvenn verðlaun að tillögu nefndarinnar, annars vegar til ÍR sem vinnur eftir metnaðarfullri stefnu og hins vegar til Víðis Sigurðssonar sem í næstum 30 ár hefur skrifað sögu knattspyrnunnar í árbækur sínar og gætt þar jafnan að því að halda í heiðri öllum þeim sem iðka knattspyrnu.
  • KSÍ vinnur að aukinni þátttöku innflytjenda í samvinnu við Alþjóðahús og hefur gefið út bækling þar sem hvatt er til aukinnar þátttöku á nokkrum tungumálum. Þessi bæklingur liggur frammi bæði hjá KSÍ og í Alþjóðahúsi en það er vinsæll áfangastaður innflytjenda.
  • KSÍ styður við og hvetur félög til að bjóða uppá verkefni fyrir minnihlutahópa, s.s. innflytjendur og fatlaða. Einnig vinnur KSÍ náið með Íþróttafélagi fatlaðra og heldur á ári hverju sérstakar æfingar þar sem fötluðum einstaklingum er boðið að mæta og æfa með landsliðsmönnum Íslands, bæði konum og körlum.
  • Um páskana mun fara fram alþjóðlegt knattspyrnumót samkynhneigðra og hefur KSÍ stutt framkvæmdaaðila mótsins með ýmsu móti.

Eins og fyrr segir þá eru ofbeldi og kynþáttafordómar sem betur fer sjaldgæfir í knattspyrnu á Íslandi. Þegar slík tilfelli hafa komið upp hefur KSÍ mætt þeim af mikilli hörku enda er það stefna sambandsins í samræmi við stefnu UEFA um „Zero Tolerance“ – „Algjört óþol“. Þar skiptir miklu að allir standi saman KSÍ, leikmenn, þjálfarar, stjórnarmenn, dómarar og samtök stuðningsmanna.

Hér fyrir neðan má sjá tengla á nokkrar vefsíður þar sem finna má upplýsingar um starfsemi samtaka sem beita sér gegn fordómum í knattspyrnu.

www.farenet.orgwww.theredcard.orgwww.kickitout.orgwww.furd.org  - www.fifpro.org

Ingibjörg Hinriksdóttir, formaður fræðslunefndar og útbreiðslunefndar KSÍ.