• 16.02.2009 00:00
  • Pistlar

Ávarp formanns á 63. ársþingi KSÍ

Geir Þorsteinsson setur 63. ársþing KSÍ
Geir_Torsteinsson_arsting_2009

 

Forystufólk íslenskrar knattspyrnu

Góðir þingfulltrúar.

Við höldum ársþing þegar útlit í efnahagsmálum Íslendinga er það dekksta sem við höfum upplifað. Alheimskreppa er eða hefur skollið á og óvissutímar eru framundan. Knattspyrnan slær í takt við það samfélag sem við lifum í og ljóst er að rekstrarskilyrðin hafa versnað. Það eru sjálfkrafa viðbrögð að leiða hugann að því hvert hlutverk knattspyrnuhreyfingarinnar er við slíkar aðstæður. Stundum segir forseti FIFA að knattspyrna sé skóli lífsins. Sá skóli snýr ekki að almennri menntun heldur þeirri staðreynd að knattspyrnan er vettvangur ungs fólks til heilbrigðs lífernis, meiri sjálfsaga og sjálfstrauts. Samvinna, virðing fyrir leikreglum og öðrum þátttakendum, mótlæti og gleði, allt er þetta hluti af mikilvægum lærdómi leiksins. Þessi gildi hafa ávallt verið hluti af okkar starfi og eiga alltaf við. Þau eru í raun tilgangur okkar mikla starfs. Við megum ekki missa sjónar af því og nú þegar kreppir að verðum við minna okkur á þessi grunngildi.

Árið 2008 var gott fyrir íslenska knattspyrnu og í raun uppskera mikils og skipulags starfs margra ára. Mótahaldið var sem fyrr kjarninn í starfsemi KSÍ. Þetta er vandasamt starf sem þarf að vinna af vandvirkni og nákvæmni. Því miður urðu mistök bæði hjá skrifstofu KSÍ og hjá einstökum aðildarfélögum. Kærur voru fleiri en áður en heilt yfir gekk mótahaldið vel fyrir sig. Deildarkeppni Íslandsmótsins var stærri en nokkru sinni fyrr, með þremur 12 liða landsdeildum í meistaraflokki karla og 10 liða efstu deild kvenna. Umgjörð leiksins er sífellt að batna með nýjum og endurbættum leikvöngum. Aldrei fyrr hafa jafnmargir lagt leið sína á völlinn sem skýrist af fleiri leikjum en áður og aldrei fyrr hefur íslensk knattspyrna notið jafn mikils hylli í sjónvarpi. Þetta er glæsilegur vitnisburður um þrotlaust starf forystumanna íslenskrar knattspyrnu og þann mikla metnað sem einkennir þeirra störf. Gleði sigurvegaranna var mikil að vanda. FH sýndi mikinn styrk á lokaspretti Íslandsmóts meistaraflokks karla og stóð uppi sem sigurvegari í 4. sinn á síðastliðnum 5 árum, Valur var áfram með sterkt lið og varð Íslandsmeistari í meistaraflokki kvenna 3. árið í röð, en KR varð bikarmeistari bæði í meistaraflokki karla og kvenna. Ég óska þessum sigurvegurum til hamingju sem og öllum öðrum sigurvegurum sl. árs en þeir voru auðvitað margir í hinum ýmsu flokkum. Á þessu ári fer fram 50. bikarúrslitaleikurinn og verður þess minnst á árinu m. a. með útgáfu bókar um keppnina og mun Skapti Hallgrímsson gera grein fyrir sínu störfum hér síðar í dag. Þá styttist í 100. Íslandsmótið sem fer fram 2011 og höfum við fengið Sigmund O. Steinarsson til þess að hefja ritun sögu Íslandsmótsins í 100 ár sem koma á út í lok árs 2011.

Það virðist vera orðinn fastur liður að rætt sé um leikdaga í efstu deild karla og vilja leikmenn sjá breytingar á niðurröðun leikja. Ósk leikmanna er að leika í miðri viku og eiga sem flest frí um helgar yfir sumarmánuðina. Nú er staðan sú að t. d. Íslandsmeistararnir geta gert ráð fyrir að leika um 30 leiki í sumar og hugsanlega einhverjir leikmenn þeirra um 5 landsleiki á sama tímabili. Þetta gerir 35 leiki á 150 dögum eða 22 vikum. Þetta þýðir leikur 4ra hvern dag að meðaltali sem þýðir að yfir sumarið verða oftast 2 leikir í viku. Svigrúm fyrir frí er nánst ekkert og augljóst er að fjölgun um 4 leiki í deild og 1 í bikar var ekki til þess fallinn að leikmenn gætu gert sé vonir um regluleg helgarfrí - samt var stuðningur leikmanna við fjölgun í deildum mikill. Keppnistímabilið hefur ekki lengst - núverandi gerð leikvalla leyfir það einfaldlega ekki. Síðan koma til mikilvæg sjónarmið þeirra sem reka liðin, hvenær er best að fá áhorfendur á völlinn og síðast en ekki síst hvað hentar sjónvarpi. Þá er það grundvöllur í niðurröðun UEFA og FIFA að leikdagar alþjóðlegra leikja eru í miðri viku þar sem deildarkeppni um gjörvallan heim fer aðallega fram um helgar. Auðvitað er álagið ólíkt á leikmann sem leikur 23 leiki (22 í deild og 1 í bikar sem er að meðaltali 1 leikur á viku) eða á leikmann sem leikur um 35 leiki og niðurröðunin verður að taka tillit til þess að leikmaður komist yfir 35 leiki með góðu móti á okkar stutta keppnistímabili. Þetta mál verður að leiða til lykta. Mótanefnd KSÍ mun eins og hingað til fara að vilja félaganna sem leika í efstu deild en hún er jafnframt ábyrg fyrir því að niðurröðunin gangi upp. Leið leikmanna í þessu máli er í gegnum sín félög en þeir verða að muna að hlutverk þeirra í okkar hreyfingu er það skemmtilegast - að spila fótbolta.

Fræðslustarfið var umfangsmikið á árinu eins og metþátttaka í þjálfaranámskeiðum ber glöggt vitni um. Aldrei hafa jafnmörg námskeið verið haldin. Mikilvægum áfanga var náð þegar KSÍ gerði samkomulag við Knattspyrnusamband Englands um samstarf vegna svokallaðrar Pro-gráðu, en það er æðsta stig þjálfunarmenntunar. Samstarfið felst í því að KSÍ stendur til boða að senda árlega tvo þjálfara á Pro-námskeið enska knattspyrnusambandsins þar sem KSÍ býður ekki upp á slíkt námskeið. Þetta gerðist í kjölfar þess að fræðslustjóri KSÍ sótti þetta námskeið og lauk því með sóma. Knattspyrnusamband Evrópu hefur lagt blessun sína yfir þetta fyrirkomulag og munu íslenskir þjálfarar sem ljúka þessu námskeiði fá UEFA-viðurkenningu á Pro-gráðunni. Fræðsla dómara var stóraukin í samræmi við kröfur dómarasáttmála UEFA. KSÍ hefur nú fengið staðfestingu á inngöngu í sáttmálann sem er mikilvæg viðurkenning á starfi KSÍ á vettvangi dómaramála. Það var einnig mikilvæg viðurkenning fyrir íslenska dómara að eignast fulltrúa í efsta styrkleikaflokki innan UEFA og því hafa fylgt ný og spennandi verkefni á erlendum vettvangi. Íslenskir dómarar kalla eftir virðingu eins og starfsbræður þeirra um víða veröld. Það er nauðsynlegt að við verndum dómara okkar fyrir ómaklegu aðkasti. Það er nóg fyrir þá að eiga við leikmennina innan vallar sem stundum eru í slæmu skapi en það gengur ekki að þjálfarar noti fjölmiðla til þess að koma höggi á þá. Það gengur heldur ekki að dómarar, sem eru hugsanlega að stíga sín fyrstu skref, verði fyrir aðkasti forráðamanna í yngri flokkum. Við sem erum í forystu verðum að bera ábyrgð á framkomu okkar fólks og standa vörð um ímynd leiksins.

Góðir þingfulltrúar.

Fall bankanna og hrun íslensku krónunnar hefur dregið dilk á eftir sér. Á nokkrum mánuðum hefur rekstrarumhverfi okkar versnað til mikilla muna. Íslensk fyrirtæki eru mörg í kröppum dansi og hafa minnkað stuðning sinn við íþróttir. Fyrir þessu finnur knattspyrnuhreyfingin og verður að draga saman í sínum rekstri. Knattspyrnusambandið nýtur þess hins vegar að stærsti hluti tekna sambandsins er erlendis frá. Þannig getur KSÍ haldið úti starfsemi sinni af sama krafti og jafnframt aukið framlög sín til aðildarfélaga. Niðurstaða sl. rekstrarárs er tap vegna mikils gengistaps á erlendu láni vegna framkvæmda á Laugardalsvelli. Fyrir hrun bankanna treysti KSÍ á gengi íslensku krónunnar en hefur eftir fall hennar hafið skipulega vörn til þess að minnka gengisáhættu og á næstu dögum verður þessi áhætta lítil sem engin. Við höfum sem sagt greitt upp stóran hluta lánsins þar sem erlendar tekjur hafa komið á móti erlendu láni og við munum verja okkur breytingum á krónunni með innistæðum í erlendri mynt. Þetta er nauðsynlegt í umhverfi þar sem gengisóvissa er mikil. Upp er kominn ágreiningur milli skilanefndar gamla Kaupþings banka og KSÍ vegna fyrirkomulags um skipti á evrum og krónum. Ágreiningur þessi snýst um 130 m. kr auk vaxta og tengist erlendum tekjum KSÍ. Það er rétt að það komi skýrt fram að KSÍ hefur hafnað kröfum skilanefndarinnar og falið lögmanni að gæta hagsmuna sambandsins. Þá má geta þess að við tókum þá ákvörðun að hætta ávöxtun í peningasjóðum um mitt sl. sumar en við höfðum flutt stóran hluta innistæða okkar í það sparnaðarform snemma árs. KSÍ gerði samninga við Sportfive um einkarétt á sölu sjónvarpsréttar og tiltekins markaðsréttar í tvennu lagi á sl. ári fyrir tímabilið 2010-2015. Þessir samningar eru mikilvægir og leggja grunn að tekjum okkar á komandi árum. Tekjur til félaga af þessum réttindum í efstu deild karla eru tryggðar og munu félögin að auki njóta þess strax á þessu ári. KSÍ hefur aukið framlög sín til aðildarfélaga eins og tilkynnt var sl. haust og enn nú í byrjun árs. Við munum hafa frekara samráð með aðildarfélögum um skiptingu styrkja sem koma til síðar þetta ár. Ég vil taka það fram að fjárhagsstaða KSÍ er traust. Á þing okkar er kominn gestur frá UEFA - Andreas Kuhn, sem vinnur við þróunarverkefni samtakanna. Ég hef rætt við UEFA um frekari aðstoð við okkur vegna falls íslensku krónunnar og er vongóður um skilning á stöðu okkar.

Á fimmtudaginn var tilkynnti nýi Landsbankinn okkur að bankinn muni ekki taka yfir samning gamla Landsbankans og Sportfive. Landsbankinn verður því ekki samstarfsaðili okkar um efstu deild karla og kvenna. Það fóru engar viðræður fram um nýja skilmála heldur var þetta einhliða ákvörðun bankans. Þetta voru vonbrigði en ég vil þakka bankanum fyrir frábært samstarf undanfarin ár. Bankinn hefur tilkynnt okkur að hann muni halda áfram að styðja aðildarfélög KSÍ víða um land og er það vel. Við verðum einfaldlega að bretta upp ermar og leita að nýjum samstarfsaðila. Knattspyrnusamband Evrópu styður aðildarfélög KSÍ og mun væntanlega hækka framlög til þeirra um u.þ.b. 30% en sala á sjónvarps- og markaðsrétti vegna Meistaradeildarinnar og Evrópudeildarinnar næstu 3 tímabilin hefur gefið UEFA auknar tekjur. Íslandsmeistari í efstu deild karla getur því gert sér vonir um allt að 50 m. kr. fyrir þátttöku í einni umferð forkeppni Meistaradeildarinnar. Nauðsynlegt er að sveitarfélög haldi áfram að styðja rekstur íþróttafélaga jafnt meistaraflokka sem yngri flokka. Þá verðum við að standa saman í kröfu okkar um jafnræði þegar kemur að ferðakostnaði íþróttafélaga. Það var mikill sigur þegar sjóðurinn komst loksins á laggirnar og nú er markmiðið klárt. Við verðum að sækja á alþingi um framlög í sjóðinn til þess að búseta verði framvegis ekki hindrum þegar kemur að þátttöku í keppni innanlands. Það eru kosningar í vor og við eigum að nota hvert tækifæri sem gefst til að minna frambjóðendur á okkur og óska eftir a.m.k. 200 m. kr. í sjóðinn á ári. Þing ÍSÍ er framundan og þar er rétt að taka málið á dagskrá.

Aldrei fyrr í sögu KSÍ hefur Ísland leikið jafnmarga landsleiki og á árinu 2008, eða alls 65. Karlalandsliðin léku 35 leiki en kvennalandsliðin 30 leiki. Yngri landsliðin áttu misjöfnu láni að fagna á árinu, en þau eru sem fyrr mikilvægur undirbúningur og reynsla fyrir landsliðsmenn framtíðarinnar. Það sýnir vel umfang starfsins að í yngri landsliðum karla léku 100 leikmenn í leikjum ársins (alls 5 lið), en í yngri landsliðum kvenna léku 56 leikmenn í leikjum ársins (alls 3 lið). Það er mikilvægt að standa vel að þessu starfi og hlúa vel að ungum og efnilegum leikmönnum. Það er eitt af meginmarkmiðum Knattspyrnusambands Evrópu (UEFA) og Alþjóða Knattspyrnusambandsins (FIFA) að takmarka verulega félagaskipti leikmanna yngri en 18 ára á milli landa, þannig að sporna megi við þeirra þróun að ungir leikmenn hverfi of fljótt frá uppeldisfélögum sínum út í mikla óvissu og slæman aðbúnað, oft án þess að eðlilegar bætur komi til.

A landslið karla hóf leik í undankeppni HM 2010 og náði 4 stigum í 4 leikjum. Liðið er í 2.-3. sæti í sínum riðli, á eftir 4 leiki til viðbótar sem fram fara á árinu 2009 og er því í slagnum um 2. sætið. Ótvíræð batamerki eru á leik liðsins frá undankeppni EM 2008 og með góðri frammistöðu getur liðið náð 2. sæti, sem getur gefið rétt á þátttöku í umspili um sæti í úrslitakeppni HM 2010. Í Evrópu eru 9 riðlar í undankeppni HM 2010 sem gefa 13 sæti í úrslitakeppninni í S-Afríku. Sigurvegarar riðlanna 9 fá þar sæti auk þeirra fjögurra þjóða sem hafa betur í umspilsleikjum sem fram fara í nóvember 2009. Þetta þýðir að 8 af þeim 9 þjóðum sem lenda í 2. sæti í undankeppninni komast í umspil samkvæmt sérstökum reglum þar um. Þegar við horfum lengra fram á veginn er ánægjulegt að vita til þess að frá og með 2016 verða 24 lið í úrslitakeppni Evrópumótsins.

Loksins náði A landslið þeim merka áfanga að vinna sér sæti í lokakeppni stórmóts í knattspyrnu. Það var ekki A landslið karla eins og svo marga hefur dreymt um heldur A landslið kvenna sem sló í gegn og vann sér sæti í úrslitakeppni Evrópumótsins sem fram fer í Finnlandi í lok ágúst og byrjun september 2009. KSÍ hefur á undanförnum árum sótt fram á vettvangi landsliða kvenna og fylgt eftir stórauknum áhuga og þátttöku stúlkna í knattspyrnu. Aðildarfélögin hafa fundið fyrir þessum áhuga og lagt grunninn að þessum frábæra árangri með skipulagðri uppbyggingu eins og lengi hefur verið til staðar fyrir drengi. A landslið kvenna hefur unnið hug og hjörtu Íslendinga með glæsilegri framgöngu innan sem utan vallar og hróður knattspyrnunnar hefur vaxið. Nú er það verkefni knattspyrnuhreyfingarinnar að fylgja þessum árangri eftir og auka enn þátttöku stúlkna í knattspyrnu.

Ég lýk máli mínu á að þakka ykkur forystusveit íslenskrar knattspyrnu fyrir ósérhlífni og góð störf. Samstarf okkar hefur verið gott og við þurfum að vinna saman að mörgum aðkallandi verkefnum sem bíða okkar. Við sem störfum í knattspyrnu þekkjum vel mótlæti og þó að nú blási á móti í rekstrarumhverfi okkar þá vitum við að það mun birta til. Íslensk knattspyrna stendur traustum fótum þegar ég segi 63. ársþing Knattspyrnusambands Íslands sett.