• 08.02.2009 00:00
  • Pistlar

Ávarp formanns í ársskýrslu

Geir Þorsteinsson
Geir_Torsteinsson_1

Loksins náði A landslið þeim merka áfanga að vinna sér sæti í lokakeppni stórmóts í knattspyrnu. Það var ekki A landslið karla eins og svo marga hefur dreymt um heldur A landslið kvenna sem sló í gegn og vann sér sæti í úrslitakeppni Evrópumótsins sem fram fer í Finnlandi í lok ágúst og byrjun september 2009. KSÍ hefur á undanförnum árum sótt fram á vettvangi landsliða kvenna og fylgt eftir stórauknum áhuga og þátttöku stúlkna í knattspyrnu. Aðildarfélögin hafa fundið fyrir þessum áhuga og lagt grunninn að þessum frábæra árangri með skipulagðri uppbyggingu eins og lengi hefur verið til staðar fyrir drengi. A landslið kvenna hefur unnið hug og hjörtu Íslendinga með glæsilegri framgöngu innan sem utan vallar og hróður knattspyrnunnar hefur vaxið. Nú er það verkefni knattspyrnuhreyfingarinnar að fylgja þessum árangri eftir og auka enn þátttöku stúlkna í knattspyrnu.

A landslið karla hóf leik í undankeppni HM 2010 og náði 4 stigum í 4 leikjum. Liðið er í 2.-3. sæti í sínum riðli, á eftir 4 leiki til viðbótar sem fram fara á árinu 2009 og er því í slagnum um 2. sætið. Ótvíræð batamerki eru á leik liðsins frá undankeppni EM 2008 og með góðri frammistöðu getur liðið náð 2. sæti, sem getur gefið rétt á þátttöku í umspili um sæti í úrslitakeppni HM 2010. Í Evrópu eru 9 riðlar í undankeppni HM 2010 sem gefa 13 sæti í úrslitakeppninni í S-Afríku. Sigurvegarar riðlanna 9 fá þar sæti auk þeirra fjögurra þjóða sem hafa betur í umspilsleikjum sem fram fara í nóvember 2009. Þetta þýðir að 8 af þeim 9 þjóðum sem lenda í 2. sæti í undankeppninni komast í umspil samkvæmt sérstökum reglum þar um.

Aldrei fyrr í sögu KSÍ hefur Ísland leikið jafnmarga landsleiki og á árinu 2008, eða alls 65. Karlalandsliðin léku 35 leiki en kvennalandsliðin 30 leiki. Yngri landsliðin áttu misjöfnu láni að fagna á árinu, en þau eru sem fyrr mikilvægur undirbúningur og reynsla fyrir landsliðsmenn framtíðarinnar. Það sýnir vel umfang starfsins að í yngri landsliðum karla léku 100 leikmenn í leikjum ársins (alls 5 lið), en í yngri landsliðum kvenna léku 56 leikmenn í leikjum ársins (alls 3 lið). Það er mikilvægt að standa vel að þessu starfi og hlúa vel að ungum og efnilegum leikmönnum. Það er eitt af meginmarkmiðum Knattspyrnusambands Evrópu (UEFA) og Alþjóða Knattspyrnusambandsins (FIFA) að takmarka verulega félagaskipti leikmanna yngri en 18 ára á milli landa, þannig að sporna megi við þeirra þróun að ungir leikmenn hverfi of fljótt frá uppeldisfélögum sínum út í mikla óvissu og slæman aðbúnað, oft án þess að eðlilegar bætur komi til.

Kjarninn í starfsemi KSÍ er mótahald og fræðslustarf og sem fyrr voru verkefni ársins mörg. Fyrst ber að telja viðamiklar breytingar á mótahaldi í meistaraflokki. Landsbankadeild karla og 2. deild karla voru báðar í fyrsta sinn skipaðar 12 liðum eins og 1. deild karla, auk þess sem Landsbankadeild kvenna var í fyrsta sinn skipuð 10 liðum. Liðin í Landsbankadeild karla hófu leik í 32 liða úrslitum VISA-bikarsins og gátu þar dregist hvert gegn öðru í fyrsta sinn. Í 2. flokki karla léku 10 lið í stað 8 áður í A og B deild.  Allar þessar breytingar gáfust vel og munu auka á vinsældir knattspyrnuíþróttarinnar á Íslandi. Þess sáust víða merki og fleiri leikir leiddu af sér meiri heildarfjölda áhorfenda, meiri umfjöllun fjölmiðla og fleiri beinar útsendingar í sjónvarpi. Gleði sigurvegaranna var mikil að vanda. FH sýndi mikinn styrk á lokaspretti Íslandsmóts meistaraflokks karla og stóð uppi sem sigurvegari í 4. sinn á síðastliðnum 5 árum, Valur var áfram með sterkt lið og varð Íslandsmeistari í meistaraflokki kvenna 3. árið í röð, en KR varð bikarmeistari bæði í meistaraflokki karla og kvenna.

Fræðslustarfið var umfangsmikið á árinu eins og metþátttaka í þjálfaranámskeiðum ber glöggt vitni um. Mikilvægum áfanga var náð þegar KSÍ gerði samkomulag við Knattspyrnusamband Englands um samstarf vegna svokallaðrar Pro-gráðu, en það er æðsta stig þjálfunarmenntunar. Samstarfið felst í því að KSÍ stendur til boða að senda árlega tvo þjálfara á Pro-námskeið enska knattspyrnusambandsins þar sem KSÍ býður ekki upp á slíkt námskeið. Þetta gerðist í kjölfar þess að fræðslustjóri KSÍ sótti þetta námskeið og lauk því með sóma. Knattspyrnusamband Evrópu hefur lagt blessun sína yfir þetta fyrirkomulag og munu íslenskir þjálfarar sem ljúka þessu námskeiði fá UEFA-viðurkenningu á Pro-gráðunni. Fræðsla dómara var stóraukin í samræmi við kröfur dómarasáttmála UEFA. KSÍ hefur nú fengið staðfestingu á inngöngu í sáttmálann sem er mikilvæg viðurkenning á starfi KSÍ á vettvangi dómaramála. Það var einnig mikilvæg viðurkenning fyrir íslenska dómara að eignast fulltrúa í efsta styrkleikaflokki innan UEFA og því hafa fylgt ný og spennandi verkefni á erlendum vettvangi.

Allt er í heiminum fallvallt. Enginn sá fyrir þær miklu breytingar sem urðu til hins verra í íslensku efnahagslífi sl. haust. Það var lán í óláni að þessar miklu sviptingar urðu við lok síðasta keppnistímabils og því hefur knattspyrnuhreyfingin haft tíma og ráðrúm til þess að takast á við ný og mun lakari rekstrarskilyrði íþróttafélaga en áður var. Tekjur aðildarfélaga munu minnka og því nauðsynlegt að útgjöldin minnki. KSÍ hefur lagt sitt af mörkum og aukið framlög til aðildarfélaga, sem vonandi hjálpar til á erfiðum tímum. Saman munum við standa vörð um knattspyrnustarfið og horfa með bjartsýni fram á veginn.

Stjórn KSÍ þakkar aðildarfélögum sínum fyrir gott knattspyrnustarf á árinu.  Samstarf  forystumanna félaganna og KSÍ hefur verið farsælt og til fyrirmyndar.  Á árinu funduðu stjórn KSÍ og einstaka stjórnarmenn sambandsins víða um land með aðildarfélögum en slíkt fyrirkomulag skapar meiri nálægð við félögin og mismunandi áherslur koma betur fram.  Ætlunin er að halda áfram á sömu braut og sækja aðildarfélög heim eins og kostur er. 

Stjórn KSÍ þakkar einnig öllum þeim sem lagt hafa knattspyrnunni lið á árinu, s.s. nefndarmönnum, sjálfboðaliðum, stuðningsmönnum, samstarfsaðilum, fjölmiðlum og starfsmönnum hreyfingarinnar, og síðast en ekki síst öllum þeim fjölda iðkenda sem skemmta sér við að leika knattspyrnu alla daga ársins.   

Geir Þorsteinsson, formaður KSÍ