• 06.08.2008 00:00
  • Pistlar

Viðamikið fræðslustarf

Sigurður Ragnar Eyjólfsson
sigurdur_ragnar_eyjolfsson

Knattspyrnusamband Íslands hefur lagt mikla áherslu á að halda úti viðamiklu fræðslustarfi.  KSÍ samþykkti nýlega að taka þátt í risastóru fræðsluverkefni á vegum UEFA sem verður í gangi næstu 4 árin.  Verkefnið kallast "UEFA study scheme" og snýst um að hjálpa aðildarþjóðum UEFA að læra af hvoru öðru á sviði kvennaknattspyrnu, knattspyrnu yngri flokka, grasrótarfótbolta og þjálfaramenntunar.

KSÍ mun senda hóp þjálfara til Sviss til að fylgjast með yngri flokka þjálfun 3. - 6. nóvember og bjóða svo öllum þjálfurum í Landsbankadeild kvenna til Finnlands 25. - 28. nóvember til að fræðast um kvennaknattspyrnu.  Í byrjun maí á næsta ári mun KSÍ svo senda fulltrúa til að kynna sér þjálfaramenntun í Noregi.  KSÍ hefur jafnframt skuldbundið sig til að taka á móti gestum frá erlendum knattspyrnusamböndum og bíður spennt eftir að fá að taka á móti fyrstu fulltrúum þeirra.

Mörg önnur fræðsluverkefni eru framundan.  KSÍ og ÍSÍ hafa ákveðið að halda sameiginlega ráðstefnu á næstunni þar sem þjálfarar sem hafa heimsótt erlend félög deila þekkingu sinni.

Haustin eru helsti tími þjálfaranámskeiða og fræðslu hjá KSÍ.  KSÍ býður upp á tvær alþjóðlega viðurkenndar þjálfaragráður og er með 7 þrepa þjálfaramenntunarkerfi sem er gæðavottað af UEFA.  KSÍ mun m.a. bjóða KSÍ A þjálfurum upp á endurmenntunarnámskeið í Hollandi í samstarfi við Knattspyrnuþjálfarafélagið í október og halda vikunámskeið í Englandi í nóvember.  Árlega koma mörg hundruð þjálfarar á þjálfaranámskeið KSÍ, enda er þjálfaramenntun á háu stigi hér á landi.

KSÍ hefur lagt metnað sinn í að reyna að fá hæfa erlenda fyrirlesara og þjálfara til landsins til að deila þekkingu með þjálfurum á Íslandi.  Verið er að vinna í að fá mjög hæfan erlendan þjálfara til landsins til að vera með fræðsluerindi fyrir þjálfara og verður það kynnt fljótlega.

Þá eru ótalin dómaranámskeið KSÍ sem hefur fjölgað svo um munar með komu Magnúsar Jónssonar dómarastjóra KSÍ.  Öflug menntun og fræðsla skilar sér í betri knattspyrnu.

Sigurður Ragnar Eyjólfsson, fræðslustjóri K