• 02.07.2008 00:00
  • Pistlar

Sigur knattspyrnunnar

Geir Þorsteinsson
Geir_Torsteinsson_1

Nú er lokið úrslitakeppni EM 2008 með glæsilegum og verðskulduðum sigri landsliðs Spánar. Liðið lék vel alla keppnina og ávallt til sigurs. En það er ekki bara sigur Spánverja sem lifir í minningunni því þessi úrslitakeppni bauð upp á svo marga skemmtilega leiki að rétt er að tala um knattspyrnuveislu af bestu gerð. Leikmenn sýndu ótrúlegan sigurvilja og dirfsku í leik sínum, sóknarleikurinn var í fyrirrúmi. Boðskapur UEFA um virðingu skilaði sér til leikmanna og þjálfara - fallegur leikur fékk notið sín á kostnað ljótra og óþarfa leikbrota. Sigur knattspyrnunnar segja margir um úrslitakeppni EM 2008. Framkvæmdin var gestgjöfunum, Austurríki og Sviss, til mikils sóma og keppni landsliða hefur enn styrkt stöðu sína í evrópsku þjóðlífi.

Það var ánægjulegt að sjá hversu vel átak UEFA undir kjörorðinu virðing (respect) tókst vel. Leikmenn sýndu hver öðrum tilhlýðilega virðingu í leik og það sama gerðu þjálfararnir. Þetta skilaði sér í skemmtilegri leikjum og auðveldaði dómurum störf sín. Þetta skilaði sér einnig til áhorfenda en framkoma þeirra var í heildina góð og þeir skemmtu sér vel. Af þessu getum við lært í íslenskri knattspyrnu. Mót KSÍ hafa á þessu sumri boðið upp á fjölda skemmtilegra leikja og mörg glæsileg tilþrif leikmanna.

En inn á milli hafa komið upp óþarfa atvik þar sem einmitt hefur vantað upp á að nægileg virðing væri sýnd. Það er því miður svo að þá er stundum vegið að heiðri íslenskra dómara.

Á þessu starfsári hefur KSÍ lagt meira til þjálfunar og kennslu dómara en nokkru sinni áður. FIFA og UEFA hafa lagt aukna áherslu á þennan málaflokk og jafnframt vikið til hliðar hugmyndum um dómgæslu með aðstoð sjónvarpstækni. Það er sem sagt viðurkennt að mistök dómara hafa, eru og verða hluti af knattspyrnuleiknum. Þetta hafa leikmenn, þjálfarar og stuðningsmenn þurft að sætta sig við í áranna rás. Auðvitað skoðar og metur KSÍ störf sinna dómara, einstök atvik og frammistöðu þeirra. Það er gert af þekkingu og reynslu með það að leiðarljósi að framfarir verði og mistökum fækki. Það var mikil viðurkenning fyrir KSÍ þegar einn okkar dómara, Kristinn Jakobsson, var valinn til starfa á úrslitakeppni EM 2008 og sýnir að vel hefur verið unnið.

Íslensk knattspyrnuhreyfing verður að standa vörð um knattspyrnuíþróttina og sjá til þess að þeir sem þar taka þátt eða koma við sögu komi fram af virðingu, virðingu fyrir hver öðrum og virðingu fyrir íþróttinni. Að loknum kappleik eiga leikmenn að geta gengið ósárir og heilir af leikvelli, þakkað hver öðrum fyrir leikinn með handabandi sem og dómurum leiksins. Þjálfarar gegna í þessu sambandi lykilhlutverki og ábyrg framkoma þeirra meðan á leik stendur og í leikslok sem byggist á virðingu fyrir þátttakendum leiksins og knattspyrnuíþróttinni er sjálfsögð krafa.

Lærum af úrslitakeppni EM og komum fram af virðingu á íslenskum leikvöllum - þar á leikgleðin á að vera í fyrirrúmi.

Með kveðju,

Geir Þorsteinsson,

formaður KSÍ.