• 27.06.2008 00:00
  • Pistlar

Takk fyrir

Þórir Hákonarson framkvæmdarstjóri KSÍ
Thorir_Hakonarson

Nú er nýlokið tveimur leikjum hjá A-landsliði kvenna í knattspyrnu og afar mikilvægir sigrar unnust í þeim báðum.  Liðið lék frábærlega og hefur færst enn nær því markmiði að leika í lokakeppni Evrópumótsins sem fram fer í Finnlandi á næsta ári.  Nú er eftir einn leikur í riðlakeppninni og með hagstæðum úrslitum gegn Frakklandi á þeirra heimavelli getur liðið tryggt sér sæti í úrslitakeppninni, fyrst allra A-liða Íslands sem svo myndi gera.

Markvisst hefur verið unnið að því af mörgum aðilum að ná settu markmiði en auðvitað er það liðið sjálft, leikmennirnir, þjálfarar og aðrir þeir sem starfa með liðinu, sem hafa lagt mest af mörkum og heillað þjóðina með jákvæðu hugarfari og frábærum leik.  Við munum halda áfram að skapa A-landsliði kvenna eins gott umhverfi og mögulegt er og liðið hefur marg sýnt að það stendur undir þeim væntingum sem gerðar eru til þess.  Þjóðin hefur fylgst vel með og fjölmiðlar hafa sýnt leikjum aukinn áhuga sem hefur haft það í för með sér að áhorfendur hafa fjölmennt á völlinn og stutt við bakið á stelpunum í þeirra verkefnum.  Á þá tvo leiki sem leiknir voru á síðustu dögum mættu ríflega 10.000 áhorfendur sem stóðu við bakið á liðinu og hvatti það til dáða.  Stúlkurnar stóðu svo sannarlega fyrir sínu og vel það og unnu báða leikina á mjög sannfærandi hátt.  Mikil jákvæð umfjöllun fjölmiðla og annarra á stóran þátt í því að vel hefur til tekist en jákvæð og skemmtileg framkoma leikmanna utan vallar sem innan á þó stærstan þátt í því að skapa þessa góðu stemmingu.   

Sá mikli stuðningur sem liðið hefur fengið að undanförnu er sannarlega verðskuldaður og vil ég fyrir hönd Knattspyrnusambands Íslands þakka öllum þeim fjölmörgu sem stutt hafa liðið kærlega fyrir og vonast að sjálfsögðu til þess að Íslendingar fjölmenni til Frakklands þar sem lokabaráttan fer fram þann 27. september nk.  Ég vil líka þakka leikmönnum og starfsmönnum liðsins fyrir góðan leik, öll hafið þið sýnt að þið eruð frábærir fulltrúar Íslands og góðar fyrirmyndir yngri kynslóðar. 

Við erum í góðri stöðu til þess að ná markmiðinu og með áframhaldandi stuðningi mun það takast.

Þórir Hákonarson

Framkvæmdastjóri KSÍ