• 19.06.2008 00:00
  • Pistlar

Að gera það sem engum hefur áður tekist

Sigurður Ragnar Eyjólfsson
sigurdur_ragnar_eyjolfsson

Kæri stuðningsmaður,

Þann 6. janúar 2007 sat ég fund með 40 bestu leikmönnum Íslands.  Á þeim fundi ákváðum við að gera það sem engum hefur áður tekist í sögu íslenskrar knattspyrnu.  Við ákváðum að verða fyrsta A-landslið Íslands sem kemst í úrslitakeppni stórmóts.  Til að ná að gera það sem engum hefur áður tekist þarf ákveðið hugarfar og það hefur verið eitt aðal áhersluatriðið mitt í vinnu minni með þennan hóp.  A-landslið kvenna væri nú í 3. sæti á heimslista FIFA ef listinn hefði verið núllstilltur þegar við byrjuðum að vinna saman.  Það sýnir vel hugarfar liðsins að liðið stefnir ennþá hærra á listanum.

Að þjálfa liðið er eitt það skemmtilegasta sem ég hef gert í lífinu.  Stuðningsteymið í kringum liðið er líka einstakt.  Í upphafi var ekki búist við miklu, enda þjálfarinn "reynslulaus", aðstoðarþjálfarinn "100 ára gamall" og lykilmenn hafa bæði hætt og meiðst.  En stelpurnar okkar hafa unnið glæsta sigra og þjóðin hefur hrifist með. 

Á síðasta heimaleik komu 6.000 stuðningsmenn að styðja við bakið á okkur á ógleymanlegan hátt.  Áhorfendametið var tvöfaldað á þeim leik.  Það var stórkostlegt  að upplifa þá baráttu, leikgleði, samheldni og  þjóðarstolt sem skein þá af liðinu.  Katrín Jónsdóttir fyrirliði landsliðsins sagði þá inni í klefa í hálfleik:  "Mér finnst við vera tveimur fleiri á vellinum því það er svo frábær stuðningur frá fólkinu."  Það mun hjálpa okkur mikið ef við leikum aftur "13 á móti 11" og þar kemur þú inn! 

Það eru 9.800 sæti á Laugardalsvelli.  Ég sagði við stelpurnar fyrir mörgum mánuðum síðan að það yrði uppselt á kvennalandsleik á þessu ári og þær ráku upp stór augu.  Ég stend við það sem ég sagði.  "Stelpurnar okkar" eiga skilið að það sé stuðningsmaður í hverju einasta sæti á heimaleikjum liðsins.  Væri ekki magnað ef það væri "uppselt" á leik kvennalandsliðsins og okkur tækist að gera það sem engum hefur áður tekist - með þinni hjálp.      

Hjálpaðu okkur að láta drauminn rætast. 

Áfram Ísland!

Siggi Raggi      

A-landsliðsþjálfari kvenna