• 28.04.2008 00:00
  • Pistlar

Knattspyrna í 100 ár

Geir Þorsteinsson
Geir_Torsteinsson_1

Sumarkoman boðar líf og fjör á knattspyrnuvöllum landsins. Íslandsmótið í knattspyrnu hefst 10. maí. Löngum undirbúningi leikmanna, þjálfara og forystumanna er að ljúka. Tilhlökkunin er mikil meðal stuðningsmanna með tilheyrandi væntingum um góðan árangur. Það góða við komu sumars er að stöðutöflurnar hafa verið núllstilltar og ný tækifæri til sigur bjóðast.

Það var einmitt við komu sumars árið 1908 að tvö aðildarfélaga KSÍ voru stofnuð. Knattspyrnufélagið Víkingur var stofnað 21. apríl og Knattspyrnufélagið Fram 1. maí. Bæði félögin fagna þessum merku tímmótum á ýmsan hátt á árinu. Saga knattspyrnunnar í 100 ár innan þessara félaga er saga uppbyggingar og glæstra sigra. Kynslóð eftir kynslóð hefur notið starfs þeirra undir styrkri stjórn forystumanna með ódrepandi metnað fyrir hönd síns félags og er sú raunin enn í dag. Til hamingju Víkingar og til hamingju Framarar með afmælið - þið getið litið með stolti um öxl og með bjartsýni til nýrra tíma.

Mikið hefur breyst á Íslandi sl. 100 ár, þjóðin hefur eflst á flestum sviðum og mannlífið er fjölbreyttara. Knattspyrnan hefur vaxið og dafnað í takt við þessa þróun. Aðstæður til knattspyrnu voru frumstæðar í upphafi 20. aldarinnar og félagsmyndun hófst um kaup á bolta svo að hægt væri að hefja leik. Nú er öldin önnur og knattspyrnufélög eins og Fram og Víkingur gegna veigamiklu þjónustuhlutverki við íbúa í næsta nágrenni við sig auk þess að halda úti hefðbundnum keppnisliðum. Það ríkir vaxandi skilningur yfirvalda á mikilvægi íþróttastarfsemi og er það vel enda er slík starfsemi mikilvægur þáttur í góðu mannlífi á hverjum stað.

Knattspyrnan stendur traustum fótum í dag og nýtur vinsælda sem aldrei fyrr. Við getum seint fullþakkað frumkvöðlum og leiðtogum okkar sem hafa byggt upp svo öflug félög sem raun ber vitni. Þetta frumkvöðlastarf verður að heiðra með viðeigandi hætti innan hvers félags og rita þarf sögu þess. Knattspyrna í 100 ár er glæsilegur vitnisburður og traustur grunnur sem byggja má á.

 

Gleðilegt sumar,

Geir Þorsteinsson,

formaður KSÍ.