• þri. 25. mar. 2025
  • Landslið

Þjálfarar landsliða á ferð og flugi

Eitt af mörgum markmiðum KSÍ er að auka sýnileika utan höfuðborgarsvæðisins með afreksæfingum, svokölluðum landshlutaæfingum, og um leið auka samvinnu, aðstoð og tengingu við aðildarfélög á landsbyggðinni. Landshlutaæfingarnar fjölga æfingum á vegum KSÍ og er ætlunin að þróa þetta verkefni á næstu árum. Markmiðið er að landshlutaæfingar séu 1-2 á ári í hverjum landshluta. Afskekktari svæði eru heimsótt sérstaklega.

Landsliðsþjálfarar KSÍ sækja fjölda leikja og fylgjast með miklum fjölda leikmanna. Að meðaltali fer hver þjálfari yngra landsliðs á vegum KSÍ á um 80-100 leiki á ári, auk leikja sem þeir skoða í gegnum myndbandsupptökur. Mikil þróun hefur orðið í þeim málum á síðustu árum, sem hefur hjálpað þjálfurum landsliðanna gríðarlega í að fylgjast með leikmönnum, því ekki er hægt að vera á sama tíma á öllum leikjum og sjá alla leikmenn.  Myndbandstæknin auðveldar t.a.m. mjög að fylgjast vel með leikmönnum af landsbyggðinni og þjálfararnir eyða miklum tíma í að skoða upptökur frá leikjum. Þetta hefur einnig hjálpað þjálfurum landsliðanna mikið til við að fylgjast með þeim leikmönnum sem leika með erlendum félögum - og þeim leikmönnum fjölgar, bæði kvenna- og karlamegin.

KSÍ leggur mikið upp úr því að eiga regluleg og góð samskipti við yfirþjálfara og þjálfara í aðildarfélögunum. Nýlega fóru t.a.m. fulltrúar KSÍ, Margrét Magnúsdóttir og Ómar Ingi Guðmundsson, sem sjá um hæfileikamótun KSÍ, í heimsókn á Austurland, sem gekk afar vel og þar mættu efnilegir knattspyrnukrakkar allt frá Vopnafirði til Hornafjarðar og frá öllum félögum þar á milli.  Ómar Ingi og Margrét heimsóttu einnig Ísafjörð og Akureyri í sömu viku og stefnt er að því að heimsækja Vestmannaeyjar í apríl/maí. Í þessum heimsóknum fulltrúa KSÍ gefst tími til þess að ræða við yfirþjálfara og þá sem koma að starfi félaganna.

Landslið