• fös. 14. mar. 2025
  • Agamál

Dómur í máli nr. 1/2025 - Þór gegn Aga- og úrskurðarnefnd

Áfrýjunardómstóll KSÍ hefur kveðið upp dóm í máli nr. 1/2025. Hefur dómstóllinn staðfest hinn áfrýjaða úrskurð aga- og úrskurðarnefndar um þriggja leikja bann Ibrahima Balde frá 4. mars sl.

[…] Með reglubundnum úrskurði aga- og úrskurðarnefndar þann 4. mars 2025 var Ibrahima Balde leikmanni Þórs gert að sæta 1 leiks banni vegna brottvísunar í leik Þórs og ÍR í Lengjubikar karla þann 4. mars 2025. Í skýrslu dómara til aga- og úrskurðarnefndar er ástæða brottvísunar Ibrahima Balde tilgreind sem; Ofsaleg framkoma. Nánari skýring á brottvísun er eftirfarandi:
„Leikmaður skallar andstæðing í andlitið.“
Almennt verður úrskurðum aga- og úrskurðarnefndar ekki skotið til áfrýjunardómstóls KSÍ nema í þeim undantekningartilvikum sem greinir í a til e liða gr. 17.2. í reglugerð KSÍ um aga- og
úrskurðarmál. Samkvæmt a-lið gr. 17.2. er heimilt að skjóta úrskurði aga- og úrskurðarnefndar um þriggja leikja bann eða þyngri refsingu til áfrýjunardómstóls.

[…] Í greinargerð áfrýjanda fyrir áfrýjunardómstóli er gerð krafa um að leikbann Ibrahima Balde verði stytt niður í einn leik og til vara gerð sú krafa að aga- og úrskurðarnefnd rökstyðji hvaða ástæður liggi að baki lengd leikbanns. Áfrýjandi gerir ekki athugasemd við skýrslu dómara í greinargerð sinni heldur aðeins að lengd leikbannsins. Áfrýjandi vísar til þess að leikmaður hafi ekki mótmælt dómnum eða sýnt af sér neina ósæmilega framkomu við aðra leikmenn eða dómara leiksins í kjölfar þess að hafa fengið rautt spjald. Jafnframt er vísað til þess að leikbannið sé langt í ljósi þess hversu fáir leikir séu spilaðir í Lengjubikarnum.
Að lokum gerir áfrýjandi athugasemdir við það að aga- og úrskurðarnefnd hafi ekki skoðað atvikið nánar, óskað eftir frekari skýringum frá dómurum leiksins eða óskað eftir myndbandsupptöku áður en leikmaður var úrskurðaður í leikbann.

[…] Dómurinn hefur yfirfarið öll fyrirliggjandi gögn málsins, þ.m.t. myndband af atvikinu sem barst frá áfrýjanda. Óumdeilt er að Ibrahima Balde fékk brottvísun fyrir að skalla andstæðing í andlitið þegar boltinn var fjarri. Dómurinn telur ljóst að framangreind háttsemi feli í sér ofsalega framkomu sem réttlæti þyngingu leikbanns samkvæmt gr. 13.1.4 í reglugerð KSÍ um aga- og úrskurðarmál. Þá er brotið þess eðlis að dómurinn telur ekki ástæðu til að stytta leikbann Ibrahima Balde.
Með vísan til framangreinds er hinn áfrýjaði úrskurður aga- og úrskurðarnefndar um þriggja leikja bann frá 4. mars. sl. staðfestur.

Dómur í máli nr. 1/2025.