• mið. 26. feb. 2025
  • Ársþing

Ársþing KSÍ sendi frá sér áskorun til stjórnvalda

Mynd - Mummi Lú

Á 79. ársþingi KSÍ sem fram fór á Hilton Nordica laugardaginn 22. febrúar lagði stjórn KSÍ fram ályktun um áskorun á stjórnvöld er varðar ferðasjóð íþróttafélaga. Tillagan var samþykkt með miklum meirihluta og hefur áskorunin verið send út til viðeigandi aðila. 

Áskorunina má sjá í heild hér fyrir neðan.

 

Reykjavík 22. febrúar 2025


FERÐASJÓÐUR ÍÞRÓTTAFÉLAGA – ÁSKORUN TIL STJÓRNVALDA


79. ársþing Knattspyrnusambands Íslands árið 2025, sem haldið var á Hilton Nordica hóteli 
laugardaginn 22. febrúar s.l., skorar á ríkisstjórn Íslands að hækka framlag ríkissjóðs til 
ferðasjóðs íþróttafélaga strax á árinu 2025. Það er einn liður í því að íþróttaiðkun barna og 
unglinga geti þrifist á landsbyggðinni.


Greinargerð

Ferðasjóður íþróttafélaga er sjóður sem hefur mikla þýðingu fyrir íþróttahreyfinguna og þá 
sérstaklega þau íþróttafélög sem þurfa um langt að fara til að sækja keppnisleiki. 

Öll íþrótta- og ungmennafélög innan ÍSÍ hafa rétt til að sækja um styrk í sjóðinn, fyrir alla 
aldurshópa í viðurkenndum íþróttagreinum innan ÍSÍ á fyrirfram skilgreind styrkhæf mót.

Úthlutanir úr umræddum ferðasjóð hafa frá árinu 2017-2024 staðið í stað í um 125 m.kr. á ári. Á 
sama tímabili hefur heildarupphæð umsókna hækkað úr 470 í 650 m.kr. Það er því ljóst að 
framlög í sjóðinn hafa ekki fylgt þeim hækkunum sem hafa orðið á ferðakostnaði íþróttafélaga 
undanfarin ár.

Innan knattspyrnuhreyfingarinnar eru aðildarfélög sem hafa töluverðan hag af því að framlög 
ríkisins í ferðasjóð íþróttafélaga endurspegli betur þann ferðakostnað sem félög bera. 
Ferðakostnaður aðildarfélaga á landsbyggðinni er verulega stór kostnaðarliður í starfsemi þeirra 
og þær hækkanir sem hafa komið til á undanförnum árum gera rekstur félaganna enn erfiðari, 
áskoranir þeirra með reksturinn eru nú þegar nægar. Það skapar hættu á því að félög á 
landsbyggðinni dragi sig mögulega úr keppni og þá sérstaklega hjá yngri flokkum iðkenda. 

Knattspyrnuhreyfingin í heild sinni stendur sem ein heild fyrir því að aðildarfélög KSÍ á 
landsbyggðinni njóti meiri endurgreiðslu á ferðakostnaði en nú er. Til að svo verði þurfa 
stjórnvöld að endurskoða framlög til ferðasjóðsins þannig að hlutfall úthlutunar á móti 
raunkostnaði haldist a.m.k. á milli ára.