• fim. 06. feb. 2025
  • Stjórn

Minning: Ellert B. Schram

Ellert B. Schram fyrrverandi formaður KSÍ lést 24. janúar síðastliðinn 85 ára að aldri. Íþróttahreyfingin og þá knattspyrnan sérstaklega átti hug og hjarta Ellerts og fékk að njóta starfskrafta hans um langt árabil.

Ellert átti farsælan feril sem knattspyrnumaður. Hann lék sem framherji fyrir KR frá 1957 til 1971, skoraði 62 mörk í efstu deild og var lengi marka­hæsti KR-ing­urinn frá stofn­un fé­lagsins. Ell­ert varð Íslands­meist­ari með KR fimm sinnum og bikar­meist­ari sjö sinnum, og var sæmdur titlinum knattspyrnumaður ársins fjórum sinnum. Hann var einnig hluti af íslenska landsliðinu frá 1959 til 1970 og lék 23 landsleiki þar sem hann skoraði 6 mörk. Eftir að leikmannsferli hans lauk, tók Ellert við sem þjálfari KR árið 1973.

Félagsstörfin voru Ellerti hugleikin og hann sat í stjórn knatt­spyrnu­deild­ar KR 1960-69 og var formaður þar síðustu tvö árin. Ellert var formaður Knattspyrnusambands Íslands 1973-89 og for­seti Íþrótta- og ólympíusambands Íslands 1991-2006. Þá sat hann í stjórn Knatt­spyrnu­sam­bands Evr­ópu (UEFA) 1982-86 og 1990-94, var einn af vara­for­set­um UEFA 1984-86 og gegndi áhrifa­störf­um þar allt til ársins 2010. Hann var sæmd­ur ridd­ara­krossi hinn­ar ís­lensku fálka­orðu og gull­merki KR, var heiðurs­formaður KSÍ, heiðurs­for­seti ÍSÍ og heiðurs­fé­lagi KR.

Þessi ferilskrá er auðvitað einstök, enda var Ellert um margt einstakur maður. Við minnumst hans og allra þeirra góðu verka sem hann vann fyrir íslenska knattspyrnu.

KSÍ minnist fallins félaga með hlýhug og vottar fjölskyldu og aðstandendum samúð.

Takk fyrir allt, Ellert. Hvíldu í friði.

Þorvaldur Örlygsson, formaður Knattspyrnusambands Íslands