Glódís Perla kjörin íþróttamaður ársins 2024
Glódís Perla var kjörin íþróttamaður ársins af samtökum íþróttafréttamanna með fullt hús stiga á árlegu hófi samtakanna og Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands. Þetta var í 69. skipti sem kjörið er haldið.
Glódís Perla Viggósdóttir átti stórkostlegt ár sem fyrirliði íslenska landsliðsins þar sem liðið tryggði sér meðal annars sæti á EM 2025 ásamt því að vera fyrirliði Bayern Munchen og hafa fengið tilnefningu til Ballon d´Or.
Í 10 efstu sætum í kjöri til íþróttamanns ársins voru fjögur úr knattspyrnunni - Albert Guðmundsson var í 4. sæti, Orri Steinn Óskarsson í því 8. og Sveindís Jane Jónsdóttir í því níunda. A-landslið kvenna var í þriðja sæti í kjörinu um lið ársins og Arnar Gunnlaugsson, þjálfari karlaliðs Víkings, þriðji í kjöri á þjálfara ársins.