Haukur hættir hjá KSÍ
Haukur Hinriksson hefur ákveðið að láta af störfum sem lögfræðingur á skrifstofu KSÍ og mun hann starfa hjá KSÍ a.m.k. fram yfir ársþing sambandsins sem haldið verður í febrúar.
Haukur gekk til liðs við KSÍ síðla árs 2015 og hefur starfað við góðan orðstír að mörgum mikilvægum verkefnum sem snúa m.a. að leyfismálum, aga- og kærumálum, lögum og reglugerðum, leikmannasamningum, umboðsmönnum leikmanna og framkvæmd ársþings, svo eitthvað sé nefnt.
KSÍ þakkar Hauki kærlega fyrir góð störf og óskar honum velfarnaðar í framtíðinni.
Staða lögfræðings hjá KSÍ verður auglýst til umsóknar á nýju ári.