Þjónustukönnun KSÍ: Yfir 80% svarenda ánægðir
Í nóvember sendi KSÍ út stutta þjónustukönnun til allra félaga. Með slíkri könnun leitast KSÍ við að kanna viðhorf aðildarfélaganna til starfs KSÍ og þeirrar þjónustu sem KSÍ veitir félögum og þeirra fulltrúum. Sambærileg könnun er send út árlega og niðurstöðurnar þannig notaðar sem mikilvægur leiðarvísir fyrir KSÍ til að efla þjónustuna og samstarfið enn frekar. Óskað var eftir einu svari frá hverju félagi. KSÍ þakkar þeim aðildarfélögum sem svöruðu könnuninni kærlega fyrir þátttökuna.
Heilt yfir og almennt er mikill meirihluti svarenda ánægður með þá þjónustu sem KSÍ veitir aðildarfélögum, sem og stuðning og samskipti við félögin og þeirra fulltrúa. Um og yfir 80 prósent svarenda eru t.a.m. ánægðir með þjónustu KSÍ við aðildarfélög, samskipti við fulltrúa félaga, viðbrögð við fyrirspurnum, stuðning og leiðbeiningar, námskeið og fræðslu. Rétt tæplega 80 prósent eru ánægð með stjórnsýslu og skipulag KSÍ og aðeins 2,5 prósent óánægð - sem er nokkuð mikil breyting frá fyrra ári þegar 42 prósent voru ánægð með þann þátt starfseminnar. Raunar var eina spurningin í könnuninni þar sem svarendur merktu við "Mjög óánægð(ur)" þar sem spurt var um þá þjónustu sem KSÍ veitir stuðningsmönnum á leikjum landsliðanna, þ.e. í engum öðrum tilfellum var svarað með "Mjög óánægð(ur)".
Einnig bárust nokkur svör við opinni spurningu þar sem svarendur voru beðnir um ábendingar eða tillögur til KSÍ um hvað sem er varðandi starfsemi og þjónustu KSÍ. Þar var m.a. nefnt skipulag mannvirkjasjóðs, þjónusta í kringum félagaskipti milli landa, umbun sjálfboðaliða, dómaramál, leikskýrsluskráningar, og einnig var veitingasala á landsleikjum sérstaklega nefnd.
Niðurstöður
Þjónusta:
- 80% mjög ánægð/nokkuð ánægð.
- 15% hlutlaus.
- 5% nokkuð óánægð/mjög óánægð.
Samskipti:
- 82,5% mjög ánægð/nokkuð ánægð.
- 10% hlutlaus.
- 7,5% nokkuð óánægð/mjög óánægð.
Viðbrögð við fyrirspurnum:
- 80% mjög ánægð/nokkuð ánægð.
- 15% hlutlaus.
- 5% nokkuð óánægð/mjög óánægð.
Stuðningur og leiðbeiningar:
- 80% mjög ánægð/nokkuð ánægð.
- 12,5% hlutlaus.
- 7,5% nokkuð óánægð/mjög óánægð.
Námskeið og fræðsla:
- 80% mjög ánægð/nokkuð ánægð.
- 20% hlutlaus.
- 0% nokkuð óánægð/mjög óánægð.
Skipulag og stjórnsýsla:
- 77,5% mjög ánægð/nokkuð ánægð.
- 20% hlutlaus.
- 2,5% nokkuð óánægð/mjög óánægð.
Framkvæmdir á Laugardalsvelli:
- 90% mjög ánægð/nokkuð ánægð.
- 10% hlutlaus.
- 0% nokkuð óánægð/mjög óánægð.
Þjónusta við stuðningsmenn á landsleikjum:
- 42,5% mjög ánægð/nokkuð ánægð.
- 47,5% hlutlaus.
- 10% nokkuð óánægð/mjög óánægð.