• fös. 25. okt. 2024
  • Mótamál
  • Besta deildin

Úrslitin ráðast í Bestu deild karla

Lokaumferð Bestu deildar karla fer fram um helgina.

Á laugardag fara fram fimm leikir, og munu þeir leiða í ljós hvaða lið mun falla niður í Lengjudeildina ásamt Fylki. Fylkir er í neðsta sæti deildarinnar með 18 stig en fyrir ofan Fylki koma Vestri og HK jöfn með 25 stig. HK mætir KR í lokaumferðinni en Vestri tekur á móti Fylki. Fram og KA mætast einnig í neðri hluta Bestu deildarinnar og fara allir leikirnir fram klukkan 14:30.

Á sama tíma er mikil barátta um síðasta Evrópusætið í efri hluta Bestu deildar karla en það munar aðeins tveimur stigum á Val í þriðja sæti deildarinnar og Stjörnunni í því fjórða. Stjarnan tekur á móti FH og Valur tekur á móti ÍA, báðir leikir fara fram klukkan 16:15.
Á sunnudag klukkan 18:30 fer fram sannkallaður úrslitaleikur þegar Víkingur R. tekur á móti Breiðablik. Bæði lið eru jöfn á stigum en Víkingur R. leiðir í markatölu og dugar þeim því jafntefli á sunnudag. 

 

Besta deild karla - Efri hluti

Besta deild karla - Neðri hluti