• fös. 25. okt. 2024
  • Landslið
  • A kvenna

Tap í Austin

A kvenna tapaði 1-3 gegn Bandaríkjunum er liðin mættust í Austin, Texas.

Um var að ræða fyrri vináttuleik þjóðanna af tveimur, en liðin mætast aftur á sunnudag í Nashville, Tennessee.

Íslenska liðið hóf leikinn vel og var leikurinn nokkuð jafn lengi vel, þó að Bandaríkin væru meira með boltann. Það var svo undir lok fyrri hálfleik sem Bandaríkin tóku forystuna með frábæru skoti. Staðan því 1-0 fyrir Bandaríkjunum í hálfleik.

Ísland kom mjög vel út í seinni hálfleikinn, hélt boltanum vel og á 56. mínútu jafnaði Selma Sól Magnúsdóttir leikinn með frábæru skoti fyrir utan teig. Leikurinn var jafn eftir þetta, Bandaríkin meira með boltann en Ísland stóð vörnina vel og náði góðum spilköflum inn á milli. Bandaríska liðið hins vegar skoraði tvö mörk á fimm mínútna kafla í lok leiks og 1-3 tap því staðreynd.

Liðin mætast í Nashville, á Geodis Park, á sunnudag og hefst sá leikur kl. 21:30 að íslenskum tíma. Bein útsending verður frá leiknum á síðu KSÍ í Sjónvarpi Símans.