• fim. 24. okt. 2024
  • Fræðsla

Flestir iðkendur í knattspyrnu sem fyrr

Iðkendatölfræði ÍSÍ fyrir árið 2023 er komin út.  Samkvæmt tölfræði ÍSÍ voru flestar iðkanir í knattspyrnu árið 2023, eða rúmlega 30 þúsund, en næst þar á eftir kemur golf með rúmlega 27 þúsund.  Þar á eftir koma fimleikar og hestamennska.

Mynd:  Fjöldi - 15 efstu sérsamböndin.

Frá ÍSÍ:

Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands (ÍSÍ) hefur gefið út tölfræði fyrir árið 2023 sem unnin var upp úr starfsskýrslum íþróttahreyfingarinnar, sem skilað var inn til sambandsins í ár. Hægt er að sjá í Tölfræði 2023 yfirlit yfir iðkendur, skipt niður á íþróttahéruð og sérsambönd. Um er að ræða einstök gögn sem gefa gott og ítarlegt yfirlit yfir þróun íþrótta á Íslandi og umfang og samsetningu íþróttahreyfingarinnar. Um 90% gagnanna, sem skilað er inn sjálfvirkt, eru send inn frá Abler, kerfi sem íþróttahreyfingin er að nota í sínum daglega rekstri.

Hér má finna tölfræðina 2023

Hægt er að skoða iðkun eftir kyni og aldurbili (t.d. sérsamband línurit) og einnig er hægt er að skoða hvaða íþróttagreinar eru stundaðar í hverju héraði fyrir sig, fjölda í íþróttagrein, iðkun eftir póstnúmerum og fleira áhugavert. Ef skoðað er mælaborðið með yfirskriftinni „Samanburður gagna 2023-2022” þá er hægt að skoða breytinguna sem hefur orðið hefur á milli ára í íþróttahéruðum og íþróttagreinum. Unnið er með Power BI til að greina og birta gögn myndrænt fyrir notendur. Það hefur aukið möguleika notenda á skoðun og flokkun gagna.

Tvær tegundir af mælaborðum hafa verið útbúnar og gefnar út og fleiri eru í þróun: 
*Tölfræði 2023 - heildarskrá með öllum upplýsingum.
*Samanburður gagna 2023 og 2022 - þar sem verið er að bera saman iðkanir á milli þessara ára, bæði hjá íþróttahéruðum og sérsamböndum.