KSÍ hefur sótt um í Afrekssjóð ÍSÍ fyrir 2025
KSÍ hefur lagt fram umsókn um úthlutun úr Afrekssjóði ÍSÍ fyrir árið 2025.
KSÍ teflir fram landsliðum í öllum aldursflokkum, sem leika mikinn fjölda landsleikja yfir allt árið. Á meðal verkefna ársins 2025 má nefna þátttöku A landsliðs kvenna í lokakeppni EM í Sviss. Þátttaka í lokamóti A landsliða er afar kostnaðarsöm og má nefna að á EM A landsliða kvenna sem fram fór á Englandi sumarið 2022 voru gjöld umfram tekjur 52,2 milljónir króna. Ef áætlanir ganga eftir verður niðurstaðan svipuð á EM 2025.
KSÍ er flokkað sem Afrekssérsamband, samkvæmt skilgreiningu Afrekssjóðs ÍSÍ, ásamt 21 öðru sérsambandi sem á aðild að ÍSÍ. Í desember 2023 staðfesti framkvæmdastjórn ÍSÍ skriflega að KSÍ myndi ekki fá úthlutun úr Afrekssjóði vegna ársins 2024 og því sótti KSÍ ekki um. Fyrir árið 2024 bárust Afrekssjóðnum umsóknir frá 32 samböndum og hlutu þau öll styrk vegna afreksíþróttastarfs og landsliðsverkefna. Alls var úthlutað rúmlega 512 milljónum króna fyrir það ár.
Árið 2023 fór heildarfjöldi leikja allra landsliða á vegum KSÍ samanlagt yfir eitt hundrað. Það ár var 127 milljóna króna tap á rekstri KSÍ, og vó aukinn kostnaður við landslið þar þungt. Árangur kostar peninga og árangur U19 landsliða kvenna og karla, sem bæði léku í lokakeppni EM það ár, sem og þátttaka U20 kvenna í umspili um sæti í lokakeppni HM, svo dæmi séu nefnd, var kostnaðarsamur.
Í reglugerð um Afrekssjóð kemur eftirfarandi meðal annars fram:
- „Meginhlutverk Afrekssjóðs ÍSÍ er að styðja sérsambönd fjárhagslega og þar með íslenskt afreksíþróttafólk við að ná árangri í alþjóðlegri keppni.“
- „Við úthlutun styrkja skal gæta jafnræðis, hlutlægni og gagnsæis.“
KSÍ bindur miklar vonir við úthlutun Afrekssjóðs fyrir árið 2025.