Minning: Svanfríður María Guðjónsdóttir
Svanfríður María Guðjónsdóttir lést 13. september síðastliðinn. Hún vann ötullega að uppbyggingu knattspyrnu kvenna á Íslandi og var fyrsta konan sem kjörin var í stjórn KSÍ. Hún átti sæti í varastjórn sambandsins 1985 og 1986.
Svanfríður hafði starfað í kvennanefnd KSÍ áður en hún var kosin í stjórn og vann hún mikið með landsliði kvenna í knattspyrnu um árabil, útvegaði æfingaleiki og var því til halds og trausts á ýmsan hátt. Einnig starfaði hún mikið í kringum kvennaknattspyrnuna í Breiðabliki á fyrstu árum hennar. Svanfríður var meðlimur í Umbótanefnd ÍSÍ fyrir konur í íþróttum um árabil og vann þar frábært starf að hagsmunamálum kvenna í íþróttahreyfingunni.
Í Meistarakeppni kvenna 2023 var í fyrsta skiptið keppt um Svanfríðarbikarinn, nýjan farandbikar til heiðurs Svanfríði.
Við minnumst Svanfríðar með hlýhug og vottum fjölskyldu og aðstandendum samúð. Hvíldu í friði.
Þorvaldur Örlygsson
Formaður KSÍ