• fös. 13. sep. 2024
  • Landslið
  • U19 kvenna
  • U15 kvenna
  • Hæfileikamótun
  • U23 kvenna

Breytingar á þjálfaraskipan yngri landsliða kvenna

Breytingar hafa verið gerðar á þjálfaraskipan yngri landsliða kvenna hjá KSÍ.

Margrét Magnúsdóttir, sem þjálfað hefur U19 landslið kvenna undanfarin ár með góðum árangri, lætur af því starfi og tekur við Hæfileikamótun KSÍ og þjálfun U15 landsliðs kvenna. Samhliða þeim verkefnum mun Margrét einnig sinna starfi þjálfara U23 landsliðs kvenna. Mikil ánægja hefur verið með störf Margrétar hjá KSÍ og vill sambandið lýsa yfir ánægju sinni með það að Margrét taki þessi mikilvægu verkefni að sér.

Um leið tilkynnist það að Þórður Þórðarson, sem verið hefur aðstoðarþjálfari Margrétar með U19 landslið kvenna, taki við U19 liðinu sem aðalþjálfari, og láti af störfum sem þjálfari U16 og U17 kvenna. Þórður er margreyndur þjálfari og var m.a. landsliðsþjálfari U19 kvenna árin 2014-2021 ásamt því að vera aðstoðarþjálfari U16 og U17 kvenna á sama tímabili.

Eftir stendur, í framhaldi af þessum breytingum, að skipa þjálfara fyrir U16 og U17 landslið kvenna og eru þau mál í skoðun hjá KSÍ.