• fim. 12. sep. 2024
  • Fræðsla

Allt að 6 milljóna króna styrkur UEFA til verkefna tengdum flóttafólki og hælisleitendum

Aðildarsamböndum UEFA býðst að sækja um styrk í sérstakan sjóð vegna knattspyrnutengdra verkefna sem tengjast flóttafólki og hælisleitendum. Með sjóðnum, sem settur var á laggirnar árið 2017, eru knattspyrnusambönd í Evrópu hvött til að starfa með knattspyrnufélögum, samtökum eða öðrum aðilum sem starfa að málefnum flóttamanna og hælisleitenda í sínum löndum og stofna til knattspyrnutengdra verkefna sem styðja við samfélagslega aðlögun þeirra.

Hægt er að sækja um styrk fyrir ný verkefni, eða verkefni sem þegar eru hafin. Ekki er hægt að sækja um styrk fyrir verkefni sem er lokið. Hvert knattspyrnusamband / aðildarland UEFA getur sent eina umsókn. Upphæð styrksins getur numið allt að 40.000 evrum sem nemur rúmlega 6 milljónum króna. Styrkur UEFA er að hámarki 70% af heildarkostnaði verkefnisins.

Samtök eða aðrir aðilar hérlendis sem þegar starfa að málefnum flóttafólks eða hælisleitenda, og vinna að yfirstandandi verkefnum eða hefðu áhuga á að stofna til nýrra verkefna í samstarfi við KSÍ, eru hvött til að hafa samband við Davíð Erni Kolbeins, grasrótarstjóra KSÍ (david.ernir@ksi.is). Umsóknir þurfa að berast KSÍ eigi síðar en 23. september. Berist fleiri en ein umsókn mun KSÍ skipa valnefnd. Þeirri umsókn sem verður fyrir valinu þarf að skila frá KSÍ til UEFA eigi síðar en 30. september.

Valnefnd UEFA, sem skipuð er fulltrúum UEFA og ýmsum sérfræðingum í málefnum flóttafólks og hælisleitenda, mun meta umsóknirnar, velja þau verkefni sem hljóta styrk.