U21 karla - glæsilegur sigur gegn Dönum
U21 karla vann glæsilegan 4-2 sigur gegn Dönum í undankeppni EM 2025.
Leikið var á Víkingsvelli, en um var að ræða mjög mikilvægan leik fyrir íslenska liðið enda riðillinn jafn og spennandi.
Danir komust yfir eftir 16 mínútna leik, en tólf mínútum síðar jafnaði Kristall Máni Ingason. Kristall Máni átti svo sannarlega eftir að koma mikið við sögu í leiknum. Ari Sigurpálsson kom Íslandi svo yfir fimm mínútum fyrir lok fyrri hálfleiks og Ísland því yfir þegar flautað var til hálfleiks.
Það tók Dani aðeins sjö mínútur að jafna metin í seinni hálfleik. Nokkuð jafnræði var með liðunum, gestirnir þó ívið betri. Á 73. mínútu var brotið á Hilmi Rafni Mikaelssyni þegar hann var kominn einn í gegn og víti dæmt og rautt á varnarmann Dana. Kristall Máni steig á punktinn og skoraði af öryggi. Aðeins tveimur mínútum síðar var hann búinn að fullkomna þrennuna og Ísland komið 4-2 yfir.
Ísland hefði getað bætt við mörkum, en þar við sat og frábær sigur Íslands því staðreynd. Liðið mætir Wales næst á þriðjudaginn á Víkingsvelli og hefst sá leikur kl. 16:30.