• þri. 03. sep. 2024
  • Lög og reglugerðir

Málskotsnefnd getur vísað málum til aga- og úrskurðarnefndar

Að gefnu tilefni vill KSÍ skýra eftirfarandi varðandi málskot atvika í knattspyrnuleikjum til aga- og úrskurðarnefndar.

Áður var það framkvæmdastjóri KSÍ sem vísaði málum vegna einstakra agabrota í knattspyrnuleikjum til aga- og úrskurðarnefndar, en nú er það sérstök málskotsnefnd sem sem gerir það, og þá er um að ræða undanþágu frá þeirri meginreglu að aga- og úrskurðarnefnd úrskurði um þau atriði, sem fram koma í atvikaskýrslum dómara og/eða eftirlitsmanna KSÍ.

Algjör forsenda þess að aga- og úrskurðarnefnd geti tekið fyrir slík atvik er að fyrir liggi að meint agabrot hafi farið framhjá dómarateymi leiksins. Sömuleiðis er það forsenda hjá aga- og úrskurðarnefnd að um sé að ræða alvarlegt agabrot, líkt og viðeigandi reglugerð gerir áskilnað um. Í slíkum málum er allur gangur á því hvernig meint brot hafa borist til vitundar málskotsnefndar KSÍ. Það getur verið nokkrum dögum eftir að leikur á sér stað að myndbrot af atviki kemur til vitundar skrifstofu eða málskotsnefndar. Í kjölfarið tekur við vinna við öflun staðfestinga frá dómarateymi, öflun álita fagfólks á meintu broti og loks gagnavinna vegna málskots til aga- og úrskurðarnefndar.

Nú hafa mál sem þessi verið færð í hendur fagnefndar sem ber heitið Málskotsnefnd og sitja þar þrír einstaklingar, þar af einn reyndur fyrrverandi knattspyrnudómari og einn löglærður. Er nefndinni ætlað framvegis að taka ákvörðun um hvort meint agabrot, sem farið hefur framhjá dómarateymi leiks, verði vísað til aga- og úrskurðarnefndar. 

Þessi breyting var gerð á ársþingi KSÍ í febrúar á þessu ári.