• fös. 30. ágú. 2024
  • Agamál

Úrskurður í máli nr. 6/2024 - KSÍ gegn Stjörnunni

Aga- og úrskurðarnefnd KSÍ hefur kveðið upp úrskurð í kærumáli nr. 6/2024. Hefur nefndin komist að þeirri niðurstöðu og knattspyrnudeild Stjörnunnar hafi ekki gerst brotleg við skrifaðar reglur og verklag við skráningu úrslita og leikskýrslu fyrir leik Stjörnunnar og Breiðabliks í Bestu deild karla þann 11. ágúst sl. Ákvað aga- og úrskurðarnefnd KSÍ því að knattspyrnudeild Stjörnunnar skuli ekki sæta viðurlögum í samræmi við grein 36.3 og 36.4 reglugerðar KSÍ um knattspyrnumót.

Úr úrskurði í máli nr. 6/2024:

[…] „Að mati aga- og úrskurðarnefndar og á grundvelli almennra lagasjónarmiða skal viðurlagaákvæði það sem er að finna í grein 36.3 og 36.4. skýrt þröngt. Skýr viðurlagaheimild skal vera fyrir hendi þannig að víst megi telja að háttsemi falli undir lýsingu viðurlagaákvæðisins. Þegar litið er til greinar 36.3. reglugerðar KSÍ má telja ljóst að ákvæðinu er ætlað koma í veg fyrir að leikskýrslur séu ýmist ranglega fylltar út eða eftir atvikum vísvitandi ranglega fylltar út. Liggur því fyrir að meta þurfi m.t.t. gildandi laga- og reglna hvort leikskýrsla í leik Stjörnunnar og Breiðabliks í Bestu deild karla þann 11. ágúst sl. hafi verið ranglega fyllt út. Að mati nefndarinnar er að finna skýrar og ótvíræðar reglur um skráningu úrslita og leikskýrslu í handbók leikja, sem samþykkt var af stjórn KSÍ 13. mars 2024. Þar segir m.a.:

„[…] þegar bæði lið hafa fyllt út leikskýrsluna er hún prentuð út, undirrituð af fulltrúum beggja félaga og afhent dómara leiksins, eigi síðar en 45 mínútum fyrir leik. Bæði félög geta fyllt út skýrsluna með góðum fyrirvara, þess vegna daginn áður. Sú skráning er aðeins aðgengileg viðkomandi félagi og birtist ekki á vef KSÍ fyrr en klukkustund fyrir skráðan leiktíma. Skýrslan er hins vegar ekki aðgengileg til útprentunar fyrr en klukkustund fyrir upphaflegan leiktíma.“

Í gögnum málsins liggur fyrir framburður dómara leiks Stjörnunnar og Breiðabliks, Sigurðar Hjartar Þrastarsonar, um að leikskýrsla leiksins hafi skilað sér til hans útfyllt og undirrituð um 50-60 mínútum fyrir upphaf leiks. Þá bera gögn málsins það með sér, þ. á m. fjölmiðlaumfjöllun, að birt leikskýrsla leiksins á vef KSÍ hafi verið rétt um sama leyti. Með vísan til framangreinds verður ekki séð að kærða, knattspyrnudeild Stjörnunnar, hafi gerst brotleg við skrifaðar reglur og verklag við skráningu úrslita og leikskýrslu. Samkvæmt því verður tilvitnuð skráning knattspyrnudeildar Stjörnunnar, á leikskýrslu leiks Stjörnunnar og Breiðabliks í Bestu deild karla þann 11. ágúst sl. ekki talin fela í sér brot á greinum 36.3 og 36.4 reglugerðar KSÍ um knattspyrnumót.

Ákvað aga- og úrskurðarnefnd KSÍ því á fundi sínum 30. ágúst 2024 að knattspyrnudeild Stjörnunnar skuli ekki sæta viðurlögum í samræmi við grein 36.3 og 36.4 reglugerðar KSÍ um knattspyrnumót.“

Úrskurðurinn