Nokkrir úrskurðir frá aga- og úrskurðarnefnd í agamálum
Aga- og úrskurðarnefnd KSÍ hefur úrskurðað í nokkrum agamálum á undanförnum mánuðum. Hægt er að lesa um þau mál hér.
27. maí 2024
Afturelding vegna framkomu forystumanns
„Á fundi nefndarinnar þann 21. maí 2024 lá fyrir greinargerð frá Knattspyrnudeild Aftureldingar sem barst nefndinni þann sama dag. Í greinargerð Aftureldingar er því haldið fram að nokkur atriði í skýrslu dómara standist ekki skoðun. Þó er í greinargerð viðurkennt að meðstjórnandi í stjórn knattspyrnudeildar Aftureldingar, hafi viðhaft óviðurkvæmileg ummæli í garð dómara að leik loknum. Að virtri greinargerð knattspyrnudeildar Aftureldingar og öðrum fyrirliggjandi gögnum er það álit nefndarinnar að framkoma forystumanns Aftureldingar eftir framangreindan leik Gróttu og Aftureldingar hafi verið vítaverð og falli undir ákvæði 13.9.d. í reglugerð KSÍ um aga- og úrskurðarmál.
Með vísan til framangreinds ákvað aga- og úrskurðarnefnd KSÍ að sekta knattspyrnudeild Aftureldingar vegna framkomu forystumanns í garð dómara eftir leik liðsins við Gróttu í Lengjudeild kvenna. Þykir upphæð sektar knattspyrnudeildar Aftureldingar hæfilega ákveðin kr. 25.000,-.“
Úrskurðurinn
6. júní 2024
Vængir Júpiters vegna framkomu áhorfenda og ónógrar gæslu
Á fundi aga- og úrskurðarnefndar KSÍ þann 4. júní 2024 lá ekki fyrir greinargerð frá Vængjum Júpiters vegna málsins. Að því virtu og öðrum fyrirliggjandi gögnum, sem m.a. fela í sér myndskeið af atvikum máls, er fallist á það með framkvæmdastjóra að um hafi verið að ræða agabrot einstaklings á ábyrgð heimafélags í leik Vængja Júpiters og Víðis í 3. deild karla þann 24. maí sl. Nánar tiltekið er það álit nefndarinnar að framkoma áhorfanda á vegum Vængja Júpiters í leiknum hafi verið vítaverð og hættuleg. Fellur framkoma áhorfanda Vængja Júpiters því undir ákvæði 13.9.d. í reglugerð KSÍ um aga- og úrskurðarmál.
Aga- og úrskurðarnefnd KSÍ fellst einnig á það með framkvæmdastjóra að Vængir Júpiters hafi sýnt af sér vanrækslu við framkvæmd leiks í leik liðsins við Víði þann 24. maí sl. Ber félagið ábyrgð á því að nauðsynleg öryggisgæsla hafi ekki verið til staðar í leiknum, sbr. tilmæli í Handbók leikja. Með vísan til framangreinds ákvað aga- og úrskurðarnefnd KSÍ að sekta Vængi Júpiters vegna vanrækslu við framkvæmda leiks Vængja Júpiters og Víðis þann 24. maí sl. og vegna framkomu áhorfanda í garð leikmanna, dómara og þjálfara. Þykir upphæð sektar Vængja Júpiters hæfilega ákveðin kr. 75.000,-.
26. júní 2024
KFA vegna vítaverðrar framkomu áhorfenda - Blys
Úr úrskurði:
„Á fundi aga- og úrskurðarnefndar 25. júní lá fyrir greinargerð frá KFA vegna málsins sem barst nefndinni þann 24. júní. Í greinargerð félagsins er ekki hreyft andmælum við þeirri fullyrðingu í greinargerð Hattar/Hugins að stuðningsmenn KFA í leiknum hafi kveikt á blysum í stúkunni.
Að teknu tilliti til greinargerða beggja félaga og annarra fyrirliggjandi gagna er það álit aga- og úrskurðarnefndar að framkoma áhorfenda KFA, er kveikt var á blysum í áhorfendastúku, hafi verið vítaverð og hættuleg öðrum áhorfendum á leiknum. Samkvæmt því fellur framkoma áhorfenda KFA undir grein 13.9.d) reglugerðar KSÍ um aga- og úrskurðarmál. Með vísan til þessa hefur aga- og úrskurðarnefnd ákveðið að sekta KFA um kr. 50.000,-.“
26. júní 2024
Þór vegna framkomu áhorfanda
Úr úrskurði:
„Á fundi nefndarinnar þann 25. júní 2024 lá ekki fyrir greinargerð frá Knattspyrnudeild Þórs. Að því virtu og öðrum fyrirliggjandi gögnum er það álit nefndarinnar að framkoma áhorfenda Þórs í framangreindum leik liðsins við Stjörnuna hafi verið vítaverð og falli undir ákvæði 13.9.d. í reglugerð KSÍ um aga- og úrskurðarmál.
Með vísan til framangreinds ákvað aga- og úrskurðarnefnd KSÍ að sekta knattspyrnudeild Þórs vegna framkomu áhorfenda í leik liðsins við Stjörnuna í Mjólkurbikarkeppni karla. Þykir upphæð sektar knattspyrnudeildar Þórs hæfilega ákveðin kr. 25.000,-.“
9. júlí 2024
ÍR vegna framkomu áhorfenda – Blys
Úr úrskurði:
„Á fundi aga- og úrskurðarnefndar 9. júlí lá fyrir greinargerð frá knattspyrnudeild ÍR vegna málsins sem barst nefndinni þann sama dag. Að teknu tilliti til greinargerðarinnar og annarra fyrirliggjandi gagna er það álit aga- og úrskurðarnefndar að framkoma áhorfenda ÍR, er kveikt var á blysum í áhorfendastúku, hafi verið vítaverð. Samkvæmt því fellur framkoma áhorfenda ÍR undir grein 13.9.d) reglugerðar KSÍ um aga- og úrskurðarmál.
Með vísan til framangreinds ákvað aga- og úrskurðarnefnd KSÍ að sekta knattspyrnudeild ÍR vegna framkomu áhorfenda í garð dómara eftir leik liðsins við Gróttu í Lengjudeild karla. Þykir upphæð sektar knattspyrnudeildar ÍR hæfilega ákveðin kr. 50.000,-.“
23. ágúst 2024
ÍR vegna framkomu áhorfenda
Úr úrskurði:
„Að virtum fyrirliggjandi gögnum er það álit nefndarinnar að framkoma áhorfenda heimaliðs í framangreindum leik ÍR og Þróttar R. hafi verið vítaverð gagnvart dómara og öðrum og falli því undir ákvæði 13.9.d í reglugerð KSÍ um aga- og úrskurðarmál.
Með vísan til framangreinds ákvað aga- og úrskurðarnefnd KSÍ að sekta knattspyrnudeild ÍR vegna framkomu áhorfenda liðsins á leik ÍR og Þróttar R. í Lengjudeild karla þann 9. ágúst sl. Þykir upphæð sektar knattspyrnudeildar ÍR hæfilega ákveðin kr. 100.000. Við ákvörðun viðurlaga knattspyrnudeildar ÍR tekur nefndin mið af úrskurði á hendur knattspyrnudeild ÍR dags. 9.7.2024. Hefur úrskurður í fyrirliggjandi máli því ítrekunaráhrif sem sektarákvörðun tekur mið af.“
23. ágúst 2024
ÍBV vegna framkomu áhorfenda
Úr úrskurði:
„Að teknu tilliti til fyrirliggjandi gagna er það álit aga- og úrskurðarnefndar að framkoma áhorfenda ÍBV, er kveikt var á blysum í áhorfendastúku, hafi verið vítaverð. Samkvæmt því fellur framkoma áhorfenda ÍBV undir grein 13.9.d) reglugerðar KSÍ um aga- og úrskurðarmál.
Með vísan til framangreinds ákvað aga- og úrskurðarnefnd KSÍ að sekta knattspyrnudeild ÍBV vegna framkomu áhorfenda eftir leik liðsins við Fjölni í Lengjudeild karla. Þykir upphæð sektar knattspyrnudeildar ÍBV hæfilega ákveðin kr. 50.000,-.“