Víkingar áfram í Sambandsdeildinni
Íslands- og bikarmeistarar Víkings eru eina íslenska félagsliðið sem komst áfram í 3. umferð forkeppni Sambandsdeildar UEFA. Breiðablik lauk keppni á þriðjudag og þrjú lið voru í eldlínunni á fimmtudagskvöld - Víkingar, Stjörnumenn og Valsmenn. Öll íslensku liðin léku fyrri leiki sína á heimavelli og seinni leikina á útivelli.
Valur tapaði 4-1 fyrir skoska liðinu St. Mirren í Skotlandi. Fyrri leiknum lauk með markalausu jafntefli.
Stjörnumenn, sem unnu fyrri leikinn 2-1, töpuðu með fjórum mörkum gegn engu í seinni leiknum gegn Paide frá Eistlandi.
Víkingur tapaði heimaleiknum gegn albanska liðinu Egnatia með einu marki gegn engu, en sneri taflinu við í seinni leiknum með tveggja marka sigri á útivelli. Víkingar eru þar með komnir í 3. umferð og mæta þar Flora Tallinn frá Eistlandi og fer fyrri leikurinn fram í Víkinni.