Ólafur Ingi tekur við U21 liði karla
Ólafur Ingi Skúlason hefur verið ráðinn þjálfari U21 landsliðs karla og tekur hann við starfinu af Davíð Snorra Jónassyni, sem var ráðinn aðstoðarþjálfari A landsliðs karla í vor.
Ólafur Ingi, sem lýkur UEFA Pro þjálfaragráðu á haustmánuðum, lék á sínum tíma 36 A landsleiki og skoraði í þeim eitt mark. Á leikmannsferli sínum hefur hann einungis leikið með Fylki hér á landi, en lék erlendis um árabil með liðum eins og Helsingborg, Sonderjyske, Zulte Waregem, Genclerbirligi og Karabukspor.
Ólafur Ingi var ráðinn þjálfari U19 ára landsliðs karla í janúar 2021. Hann náði eftirtektarverðum árangri sem þjálfari þess liðs og komst m.a. með liðið í úrslitakeppni EM 2023.
Ólafur Ingi mun einnig sinna starfi aðstoðarþjálfara í U16/U17 ára landsliðum Íslands. Lúðvík Gunnarsson er þjálfari U16/17 liðanna en mun aðstoða Ólaf Inga í U21.
U21 landslið karla